Skoðun

Strætó hagnast stór­lega á því að brjóta lög

Þórir Garðarsson skrifar

Á sex árum, frá 2010 til 2015, sparaði Strætó bs sér 1.100 milljónir króna, framreiknað til verðlags í dag, með því að taka ólögmætu tilboði í strætóakstur.

Í tveimur aðskildum dómsmálum hefur Strætó bs verið gert að greiða skaðabætur vegna þessa lögbrots. Með vöxtum nema bæturnar um 600 milljónum króna.

Fljótt á litið mætti álykta að Strætó hafi hagnast um 700 milljónir króna eftir að skaðabætur og dráttarvextir hafa verið dregin frá. Svo er þó ekki. Eigendur Strætó – sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu – borga bæturnar.

Strætó heldur því eftir öllum hagnaðinum af því að taka tilboði sem stóðst ekki kröfur í útboði árið 2010. Það eru umræddar 1.100 milljónir króna.

Niðurstaðan er því tóm hamingja fyrir Strætó. Það borgar sig bersýnilega að brjóta lög um opinber innkaup, enda sjá dómstólar til þess að lögbrjótunum sé með engu móti refsað fyrir athæfið. Því síður að sú spilling sem réði athöfnum forráðamanna Strætó bs á sínum tíma hafi nokkrar afleiðingar. Helstu neikvæðu áhrifin er verulega skaddaður trúverðugleiki fyrirtækisins, sem sést á fækkun þeirra sem taka þátt í útboðum á strætóakstri.

Fyrirtækin sem töldu sig taka þátt í heiðarlegu útboði fá aðeins hluta af sínu tjóni bætt eftir tíu ára málarekstur. Skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu fá reikninginn fyrir skaðabótunum og dráttarvöxtunum.

Forráðamenn Strætó bs hafa ekki einu sinni séð sóma sinn í að biðjast afsökunar á athæfinu þrátt fyrir skýra niðurstöðu dómstóla.

Höfundur er stjórnarformaður Allrahanda ehf.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×