Norskir fjölmiðlar segja lögreglu hafa fengið tilkynningu um málið klukkan 4.52 að staðartíma í nótt.
Er haft eftir lögreglu að staðfest sé að þrír séu látnir og einn særður. Á staðnum hafi einnig verið fimmti maðurinn en sá er ekki særður.
„Lögregla var kölluð á vettvang og hélt inn í húsið. Grunaður árásarmaður er í hópi látinna. Lögregla hefur ekki ástæðu til að halda að það séu fleiri sem tengist málinu,“ segir í tilkynningu frá lögreglu sem hefur þegar hafið rannsókn á málinu.
Í frétt VG segir að búið sé að upplýsa aðstandendur um árásina.
Uppfært 12:15: Á blaðamannafundi norsku lögreglunnar klukkan 12 kom fram að hin látnu séu karl og kona á fimmtugsaldri og svo táningur. Tvö börn til viðbótar voru á staðnum og var annað þeirra flutt sært með sjúkraflugi á sjúkrahús.