Yfirlýsingin er viðauki við nýjan þjónustusamning ráðherrans við RÚV. Á gildistíma þjónustusamningsins á að minnka umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði.
Það á að verða gert með frekari takmörkunum á birtingu viðskiptaboða, eða með því að breyta eðli og umfangi auglýsingasölu. Þá verði unnið að útfærslu stafrænna lausna sem geri viðskiptavinum kleift að panta auglýsingar á netinu.
Þá segir að komið verði til móts við mögulegt tekjutap Ríkisútvarpsins af minnkandi umsvifum á samkeppnismarkaði. Það verði gert með það að markmiði að Ríkisútvarpið geti áfram sinnt sínu lögbundna hlutverki og uppfyllt ákvæði þjónustusamnings.
Í þjónustusamningum eru aðrir þættir en vera RÚV á auglýsingamarkaði teknir fyrir. Starfsemi RÚV á að aukast um tíu prósent á landsbyggðinni á samningstímabilinu.
Fram kemur að hlutfall dagskrárefnis sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum skal á samningstímanum vera að meðaltali 35 prósent af íslensku efni í sjónvarpi, mælt í klukkustundum og miðað við frumsýnt efni á kjörtíma í línulegri dagskrá.