Stefnan er birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Björgvin H. Fjeldsted, lögmaður mannsins, segir í stefnunni að karlmaðurinn og skráð móðir hafi búið saman í hjónabandi á sjöunda áratug síðustu aldar eða fyrir tæpum sextíu árum.
Sonurinn fæddist um miðjan þann áratug og hefur karlmaðurinn frá upphafi, af ýmsum ástæðum, efast um að hann væri faðirinn. Hann segist hafa lýst fyrir konunni og syni sínum vilja til að fá óvissunni eytt með mannerfðafræðilegri rannsókn. Hvorugt þeirra hafi viljað veita liðsinni sitt.
Stefnan er birt í Lögbirtingarblaðinu þar sem ekki tókst að afla upplýsinga um hvar væri hægt að birta syninum stefnuna. Hann er skráður með óþekkt heimilisfang í Þýskalandi.
Karlmaðurinn byggir kröfu sína á því að hann sem skráður faðir eigi lögvarinn og óskilyrtan rétt á að krefjast mannerfðafræðilegrar rannsóknar til að fá úr því skorið hvort hann sé faðirinn eða ekki. Hann hafi frá fæðingu haft réttmætar efasemdir.
Eru móðirin og sonurinn því boðuð fyrir Héraðsdóm Reykjaness í febrúar.