Littler sló í gegn á HM í pílukasti þar sem þessi sextán ára strákur vann fyrstu sex leiki sína áður en hann tapaði í úrslitaleiknum fyrir Luke Humphries.
Framganga Littlers vakti heimsathygli og kvikmyndaframleiðendur hafa séð sér leik á borði og vilja koma sögu stráksins á hvíta tjaldið.
Samkvæmt frétt The Sun gerði framleiðslufyrirtæki boxarans Anthonys Joshua margra milljóna punda tilboð til að geta gert bíómynd um stutta ævi Littlers.
Strákurinn fékk tvö hundruð þúsund pund í verðlaunafé fyrir frammistöðu sína á HM, eða rúmlega 35 milljónir íslenskra króna. Talið er að hann geti fengið allt að fjörutíu milljónir punda í hvers kyns styrktarsamninga eftir ævintýrið í Ally Pally.