Enski boltinn

Sóknarlína Chelsea veldur á­hyggjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Marc Cucurella hefur þrisvar fagnað eigin marki á árinu, oftar en nokkur annar leikmaður Chelsea.
Marc Cucurella hefur þrisvar fagnað eigin marki á árinu, oftar en nokkur annar leikmaður Chelsea. AP/Dave Shopland

Sóknarleikmönnum Chelsea hefur gengið illa fyrir framan markið í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta frá áramótum. Markahæstur liðsins á þessu ári er varnarmaðurinn Marc Cucurella.

Chelsea gerði markalaust jafntefli við Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær. Cucurella kom þá inn á sem varamaður á 77. mínútu leiksins en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn, frekar en aðrir leikmenn liðsins. Cucurella er markahæsti leikmaður Chelsea á árinu 2025 með þrjú mörk.

Chelsea hefur spilað tólf leiki í ensku úrvalsdeildinni á almanaksárinu 2025 og markaskorun gengið misvel hjá liði sem er róterað reglulega. Liðið hefur skorað 17 mörk í leikjunum tólf og fengið á sig 14. Fimm hafa unnist, fjórir tapast og þrír endað með jafntefli.

Cole Palmer fór fyrir sóknarleik liðsins fyrir áramót en hefur aðeins skorað tvö mörk á nýju ári. Noni Madueke, Pedro Neto og Enzo Fernández hafa sömuleiðis skorað tvö hver - aðrir minna.

Framherjinn Nicolas Jackson er að komast aftur af stað eftir meiðsli og eflaust vonast til að hann geti fundið netmöskvana gegn nýliðum og fallkandídötum Ipswich Town næstu helgi. Aðeins þrjú mörk alls hafa verið skoruð í síðustu fjórum leikjum Chelsea (1-0 sigur á Leicester, 1-0 tap fyrir Arsenal, 1-0 sigur á Tottenham og 0-0 við Brentford).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×