Þetta segir í tilkynningu frá aðstandendum hjónanna, sem send var Ríkisútvarpinu.
Þar segir að Margrét hafi verið fædd árið 1960 og Frímann árið 1958. Hjónin voru búsett í Sandgerði.
Tilkynnt var um slys á Grindavíkurvegi um klukkan 11:35 þann 5. janúar og fóru viðbragðsaðilar strax á vettvang. Tvö ökutæki voru utan vegar þegar lögregla og viðbragðsaðilar komu að.
Frímann og Margrét voru í öðrum bílnum og voru úrskurðuð látin á vettvangi. Hitt ökutækið var steypubíll á vegum Steypustöðvarinnar, sem hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna slyssins.
Í aðalhlutverki í Björgunarsveitinni Suðurnes
Björgunarsveitin Suðurnes minnist Frímanns og Margrétar og segir sárt að sjá á eftir hjónunum öflugu.
„Frímann hefur starfað í björgunarsveit í langan tíma eða í yfir 40 ár. Hann starfaði sem formaður björgunarsveitarinnar Stakks, sem er ein af stofnsveitum Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Hann fluttist því yfir og starfaði hér síðan,“ segir í færslu Björgunarsveitarinnar Suðurnesja á Facebook. Stakkur var upphaflega björgunarsveit í Keflavík.
„Þegar Frímann flutti austur á Bakkafjörð vegna vinnu árið 2000, þá starfaði hann með björgunarsveitinni þar. Hann var fulltrúi okkar í svæðisstjórn í mörg ár, starfaði sem umsjónarmaður björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein í Sandgerði og var í nefnd um hönnun og smíði á nýjum björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.“
Sveitin sendir fjölskyldu Frímanns og Margrétar innilegar samúðarkveðjur.