Lífeyrissjóðir í ruglinu Hörður Guðbrandsson, Ragnar Þór Ingólfsson og Einar Hannes Harðarson skrifa 9. janúar 2024 13:30 Lífeyrissjóðirnir hafa fullyrt að þeim sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur, tímabundið í þrjá mánuði, á húsnæðislánum Grindvíkinga. Og fylgja þannig fordæmi bankanna. Lífeyrissjóðurinn Gildi og Landssamtök lífeyrissjóða hafa borið fyrir sig lögfræðiáliti sem kemst að þessari niðurstöðu sem verður að teljast í besta falli fjarstæðukennd tilraun til að slá ryki í augu almennings. Stjórnendur Gildis hafa látið í veðri vaka að lagabreytingar þurfi til að hægt sé að fara í almennar aðgerðir sem þessar, án þess þó að hafa kallað eftir slíkum breytingum eða bent á hvaða lögum þarf að breyta. Við höfum ítrekað bent á þá staðreynd að ekkert er í lögum sem bannar sjóðunum að fara að fordæmi bannkanna og ljóst sé að um fyrirslátt sé að ræða hjá lífeyrissjóðunum. Nú höfum fengið í hendur lögfræðiálit sem tekur af vafa um hvað sjóðunum sé heimilt og hvað ekki. Niðurstaðan er skýr og hafa sjóðirnir fulla heimild til að fylgja fordæmi bankanna. Einnig hafa þeir lagalega skyldu til að koma til móts við Grindvíkinga. Við hvetjum ykkur til að lesa álitið sem er meðfylgjandi neðar í greininni. Það er langt og ítarlegt en vel þess virði að lesa til enda. Hörður, Ragnar og Einar Hannes ÁLITSGERÐ Frá: MAGNA lögmönnum Til: Verkalýðsfélags Grindavíkur Dags: 5. janúar 2024 Efni: Heimild Gildis lífeyrissjóðs til að gefa eftir vexti og verðbætur fasteignalána vegna náttúruhamfara í Grindavík I. Málavextir og helstu álitaefni 1. Hinn 10. nóvember 2023 lýstu almannavarnir yfir neyðarstigi í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa. Samhliða tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvörðun um rýmingu Grindavíkurbæjar. Síðan þá hefur nánast samfleytt ríkt hættustig í bænum og eldgos stóð yfir rétt fyrir utan bæinn 18. – 21. desember 2023. 2. Þó íbúum Grindavíkur hafi verið heimilt að dvelja á heimilum sínum frá 23. desember sl. er mikill viðbúnaður enda miklar líkur á fleiri atburðum. Hafa flestir íbúar því verið frá heimilum sínum í tæpa tvo mánuði og mikil óvissa er um framhaldið. 3. Af þessum sökum gerðu stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, samkomulag hinn 22. nóvember 2023, um að felldir yrðu niður vextir og verðbætur í þrjá mánuði hjá lántakendum í Grindavík, sem hefðu heildarlán undir 50.000.000,- krónum. Áður höfðu bankarnir veitt lántakendum á svæðinu heimild til þess að fresta afborgunum af íbúðarlánum sínum í sex mánuði. 4. Húsnæðislán Grindvíkinga eru þó ekki einungis hjá stóru viðskiptabönkunum og hefur hópur Grindvíkinga tekið húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum, m.a. hjá Gildi lífeyrissjóði. 5. Stjórn Gildis lífeyrissjóðs hefur tekið ákvörðun um að íbúum bæjarins sem eru lántakendur hjá þeim standi til boða greiðsluskjól, þar sem unnt er að óska eftir fresti á afborgunum, vöxtum og verðbótum sjóðfélagalána.[1] 6. Gildi lífeyrissjóður hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um að veita lántakendum niðurfellingu vaxta og verðbóta, með sambærilegum hætti og viðskiptabankarnir. Hinn 13. desember 2023 birti lífeyrissjóðurinn Gildi tilkynningu um að almennar niðurfellingar vaxta og verðbóta væru óheimilar.[2] 7. Vísað var til þess að niðurstaða álitsgerðar LEX lögmannsstofu[3] væri sú að lífeyrissjóðum væri ekki heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum. Í því sambandi var tekið fram að lífeyrissjóðum væri óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en til að greiða lífeyri. 8. Tekið var fram að samkvæmt áðurnefndri álitsgerð væri lífeyrissjóðnum heimilt að taka til sérstakrar skoðunar einstaklingsbundnar aðstæður. Því myndi Gildi meta stöðu einstakra lántakenda sjóðsins í Grindavík og skoða sérstaklega hvernig væri hægt að koma til móts við þá sem höllum fæti stæðu út frá greiðslugetu og veðstöðu. Staðan á svæðinu væri þó enn um margt óljós og erfitt væri að meta hvenær kæmi til slíkra aðgerða. 9. Í kjölfarið eða 13. desember 2023 sendu Landssamtök lífeyrissjóða efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis minnisblað sama efnis. 10. Af framangreindu tilefni hefur verið óskað eftir lagalegu áliti á því hvort lífeyrissjóðurinn Gildi hafi heimild að lögum til þess að gefa eftir kröfur á hendur lántakendum með því að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum. 11. Óumdeilt er að almennar reglur um fjármálafyrirtæki og réttarsamband kröfuhafa og skuldara fasteignalána girða ekki fyrir að lánveitandi geri ráðstafanir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, enda liggur fyrir að allir stóru viðskiptabankarnir hafa gripið til samsvarandi ráðstafana gagnvart viðskiptavinum sínum án þess að því hafi verið haldið fram að þær gangi í berhögg við þessar almennu reglur. Við úrlausn um fyrirliggjandi álitaefni reynir því fyrst og fremst á það hvort ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða feli í sér sérstakar takmarkanir á heimildum lífeyrissjóða, umfram heimildir annarra lánveitenda, sem girði fyrir að slíkum sjóðum sé heimilt að ráðstafa réttindum sínum með þessum hætti. II. Lagagrundvöllur Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða 12. Gildandi lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er nr. 129/1997 (framvegis lsjl. eða lög nr. 129/1997). Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gilda lögin um alla lífeyrissjóði og samninga um tryggingavernd eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er með lífeyrissjóði átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I.-III. köflum laganna. 13. Ekkert markmiðsákvæði er að finna í lögunum en markmið þeirra er talið leiða af lokamálslið síðastnefndrar 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi lífeyrisréttindi.[4] 14. Í IV. kafla laganna er fjallað nánar um lífeyrissjóðsrekstur. Í upphafsákvæði kaflans, 1. mgr. 20. gr. laganna, er kveðið á um að starfsemi lífeyrissjóðs skuli lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal lífeyrissjóður ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem er nauðsynleg til að ná þeim tilgangi er um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. gr. ákvæðisins. Lífeyrissjóði er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi. Í athugasemdum með 20. gr. frumvarpsins því er varð að lögum nr. 129/1997 kemur fram að ákvæðið sé nauðsynlegt með hliðsjón af þeim markmiðum sem lífeyrissjóður á að keppa að, þ.e. að greiða sem hæstan lífeyri á hverjum tíma.[5] 15. Um fjárfestingar lífeyrissjóðs er fjallað nánar í VII. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skal stjórn lífeyrissjóðs móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans og ávaxta fé sjóðsins og einstakra deilda hans í samræmi við þær reglur sem taldar eru í 1-.5. tölul. og innan þeirra marka sem tilgreind eru í kaflanum. Í 1.-5. tölul. ákvæðisins er síðan tekið fram (1) að lífeyrissjóður skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi, (2) að horft skuli til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar, (3) að allar fjárfestingar skuli byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga, (4) að þess skuli gætt að eignir sjóðsins séu nægilega fjölbreyttar til að komið sé í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu og loks (5) að lífeyrissjóður skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. 16. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a er lífeyrissjóði heimilt að ávaxta fé, sem ætlað er til að veita lágmarkstryggingavernd, í innlánum viðskiptabanka og sparisjóða, fjármálagerningum og fasteignum, að uppfylltum nánari skilyrðum VII. kafla. Samkvæmt 2. mgr. skal lífeyrissjóður flokka eignir sínar í eignarflokka A-F eins og nánar greinir í 1-.6. tölul. ákvæðisins. 17. Samkvæmt b.-lið 1. tölul. 2. mgr. 36. gr. a. laganna getur lífeyrissjóður m.a. fjárfest í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign, enda fari veðhlutfall ekki umfram 75% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis eða 50% af markaðsvirði annarra fasteigna. Um slík fasteignalán er nánar kveðið í lánareglum Gildis lífeyrissjóðs.[6] 18. Um fjárreiður lífeyrissjóða kemur nánar fram í almennum athugasemdum við frumvarpið: „Í frumvarpinu er að finna meginreglur um heimildir lífeyrissjóða til að ávaxta eignir sínar á grundvelli fyrir fram kunngerðrar fjárfestingarstefnu. Hér þarf að hafa í huga að eitt af verkefnum sjóðanna er að ávaxta eignir þannig að þeir verði sem best færir um að greiða lífeyri þegar fram í sækir. Að hinu leytinu þarf að hafa í huga að sjóðirnir taki ekki óeðlilega áhættu í ráðstöfun og ávöxtun eigna sem geti rýrt lífeyri einstaklinga úr hófi. Því er gerð almenn krafa um aðgát í fjárfestingu þó svo að heimildir sjóðanna til að fjárfesta innan lands sem utan séu sniðnar að því fjármálaumhverfi sem nú er að ryðja sér til rúms.‘‘[7] 19. Í 29. gr. laganna er mælt fyrir um að stjórn sjóðs beri ábyrgð á starfsemi hans og að hún sé í samræmi við lögin, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir viðkomandi sjóðs. Þannig er m.a. á höndum stjórnarinnar að móta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins sbr. 3. tl. 3. mgr. 29. gr. laganna. 20. Um störf sjóðsins er nánar kveðið í 31. gr. laganna en samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins annast framkvæmdarstjóri daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðsstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdarstjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðsstjórn. 21. Samkvæmt fjárfestingastefnu Gildis lífeyrissjóðs heyrir framkvæmd fjárfestingarstefnu undir framkvæmdastjóra og eignastýringu Gildis, þ.m.t. öll dagleg starfsemi við fjárfestingar.[8] 22.L jóst er þannig að það er hlutverk framkvæmdarstjóra og eignastýringar að annast fasteignalán til sjóðfélaga og að slík verkefni teljast til daglegrar starfsemi sjóðsins. Almennar reglur samninga- og kröfuréttarins 23. Samkvæmt íslenskum rétti hefur verið talið að viss trúnaðarskylda (einnig kölluð tillitsskylda) gildi við gerð, framkvæmd og slit samninga.[9] 24. Inntaki hinnar svonefndu tillitsskyldu hefur m.a. verið lýst þannig að samningsaðila beri skylda til þess að láta ekki eigin hagsmuni ráða alfarið athöfnum sínum eða athafnaleysi í samningssambandinu, heldur verði þeir, innan ákveðinna marka að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans.[10] 25. Tillitsskyldan hefur m.a. verið talin fela í sér eftirfarandi: „Tillitsskylda getur birst í þeirri mynd, að samningsaðila sé ekki stætt á því að halda fram ítrasta rétti samkvæmt samningi, ef það leiðir til ósanngjarnar niðurstöðu fyrir gagnaðila. Af því leiðir, að samningsaðili getur þurft að fallast á tilteknar breytingar á samningi, ef það hefur ekki í för með sér teljandi kostnað, áhættu eða óhagræði fyrir hann, sbr. sjónarmið að baki reglu 36. gr. smnl.‘‘[11] 26. Trúnaðar- og tillitsskyldur eru afstæðar en þær eru almennt ríkari í langtímasamningssamböndum. Að sama skapi er ríkari tillitsskylda í tilfelli stofnana sem annast lánveitingar til neytenda, en í annarskonar samningssamböndum, en framangreint leiðir einna helst af þeim mikla aðstöðumun sem er á milli aðila við samningsgerð.[12] 27. Um þessa ríku tillitsskyldu lánastofnana hefur ítrekað verið fjallað í dómaframkvæmd en sem dæmi má nefna dóm Hæstaréttar frá 16. febrúar 1995 í máli nr. 445/1992 og dóm Landsréttar frá 29. nóvember 2019 í máli nr. 118/2019. 28. Auk þess að vera almenn meginregla birtist framangreind regla einnig í einstökum lagaákvæðum. Þannig má t.d. finna regluna í lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.[13]Markmið laganna, samkvæmt 1. gr. þeirra, er að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda. Markmið laganna er jafnframt að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna við óhóflegri skuldsetningu neytenda. 29. Í 5. gr. kemur fram að lánveitendur og lánamiðlarar skuli í öllum störfum sínum sem falla undir gildissvið laganna, starfa af heiðarleika, sanngirni og gagnsæi með fagmennsku að leiðarljósi og hafa réttindi og hagsmuni neytenda í huga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal lánveiting, lánamiðlun og veiting lánaráðgjafar byggjast á upplýsingum um aðstæður neytanda og tekið skal tillit til óska sem neytandi kemur sérstaklega á framfæri. Jafnframt skal byggt á eðlilegum forsendum varðandi hugsanlegar breytingar á aðstæðum neytanda á lánstímanum. 30. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 118/2016 kemur m.a. eftirfarandi fram: „Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, fjalla almennt um viðskiptahætti fyrirtækja gagnvart neytendum. Því koma ákvæði þeirra laga jafnframt til álita varðandi háttsemi lánveitenda og lánamiðlara gagnvart neytendum. Þó verður að líta til þess að mat á góðum viðskiptaháttum samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu miðar við hinn almenna neytanda en gera verður strangari kröfur til þess að lánveiting, lánamiðlun og veiting lánaráðgjafar samkvæmt frumvarpi þessu miði að þörfum þess neytanda sem í hlut á, þar sem það á við.‘‘[14] 31. Af framangreindu leiðir að við framkvæmd lánasamninga, á borð við fasteignalánasamninga íbúa Grindavíkur við Gildi lífeyrissjóð, gilda ríkar tillitsskyldur. Í þeim skyldum lánveitanda getur falist að lífeyrissjóðnum sé ekki rétt að halda fram ítrasta rétti við lántakendur og jafnvel að sjóðnum sé rétt að fallast á breytingar samningsins. Umfang eftirgjafarinnar og heildarsamhengi getur þar skipt máli. 32. Almennt er viðurkennt í íslenskum samninga- og kröfurétti að breyttar aðstæður geta heimilað að breyting verði gerð á viðvarandi samningi, einkum langtímasamningi þar sem aðstæður hafa breyst verulega.[15]Þær breyttu aðstæður sem hér eiga við geta allt í senn fallið undir meginreglur um force majeure, brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 33. Að íslenskum kröfurétti gildir almenn meginregla um óviðráðanleg ytri atvik eða svokölluð force majeure regla. Reglan hefur verið skilgreind með þeim hætti að hún vísi til ófyrirséðra, óviðráðanlegra ytri atvika, sem séu sérstök í eðli sínu, og valdi því að ómögulegt eða því sem næst sé að efna samningsskuldbindingu, og eigi þau þá að hafa áhrif á efndaskylduna, eða hvort og hvaða vanefndum megi beita.[16] 34. Til þess að ómöguleiki sé talinn vera fyrir hendi verða að vera til staðar orsakatengsl á milli hins ófyrirséða og óviðráðanlega atviks og möguleika á efndum skuldbindingar. Efndir þurfa raunar ekki að vera ómögulegar til þess að reglan eigi við heldur á hún jafnframt við í tilvikum þar sem efndir krefðust svo mikils kostaðar eða erfiðleika fyrir skuldara að það væri ósanngjarnt.[17] 35. Samningsaðilar hafa jafnan ástæður fyrir því að ganga til samninga. Þær ástæður eða hvatir sem eru teknar berum orðum fram í samningi eru nefnd fyrirvarar eða skilyrði. Ástæður eða hvatir samningsaðila sem ekki eru gerðar að skilyrði samningsins eru nefndar forsendur.[18] 36. Með brostnum forsendum er átt við staðreyndir sem koma til eftir að samningur var gerður sem hafa afgerandi áhrif á vilja manns til að efna samning.[19]Þegar grundvallarástæður aðila fyrir samningnum bresta (forsendubrestur) getur það leitt til þess að aðili samnings leysist undan skuldbindingu sinni í heild eða að hluta[20], þ.e. ógildingar samnings eða breytinga á honum. Skiptir þá ekki öllu máli hvort um er að ræða skilyrði sem tekið var beint upp í samninginn eða forsendu sem lá að baki samningnum án þess að rata inn í orðalag hans. 37. Við mat á því hvort forsenda geti talist veruleg og hvort rétt sé að forsendubrestur leiði til breytinga á samningi geta ýmis atriði komið til skoðunar. Útgangspunkturinn er á endanum sanngirnis- og hagsmunamat þar sem tillit skal taka til allra atvika og beggja samningsaðila.[21]Það sanngirnismat sem framkvæma skal við mat á brostnum forsendum skarast þannig oft við mat á því hvort rétt sé að breyta samningi með stoð í almennri sanngirnisreglu 36. gr. samningalaga.[22] 38. Samkvæmt 36. gr. samningalaga má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig. Líta skal til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar koma til. Öll viðeigandi atriði skulu þannig notuð til að framkvæma heildstætt sanngirnismat á stöðu samningsins. 39. Dómstólar hafa margoft beitt ákvæði 36. gr. samningalaga til þess að breyta samningum. Má hér nefna sem dæmi að lánveitendur, m.a. lífeyrissjóðir, þurftu að fella niður fjölmargar tryggingar fyrir lánum (bæði sjálfskuldarábyrgðir og veð í fasteignum) vegna dómsmála sem vörðuðu ófullnægjandi mat á greiðslugetu aðalskuldara.[23]Rétt er að taka fram að í málunum þurfti almennt ekki að líta til stöðu lána eða greiðslugetu ábyrgðarmanns. Aðstæðurnar voru nægjanlegar, einar og sér, til þess að sanngjarnt teldist að gera breytingar á samningi. 40. Atvik sem verða eftir samningsgerð hafa leitt til þess að sanngjarnt sé að gera breytingar á samningi. Sem dæmi um tilvik sem geta talist sambærileg og hér á við, þ.e. ófyrirsjáanlegar og óviðráðanleg ytri atvik, má nefna dóm Hæstaréttar 21. júní 2011 í máli nr. 542/2010. Í málinu var deilt um hvort efnahagshrunið sem varð á Íslandi 2008, og sú aðstaða sem skapaðist eftir það, gæti leitt til breytinga á samningi um byggingu sundlaugar. Hæstiréttur taldi að hvorugur samningsaðili hefði getað séð fyrir hinar ófyrirséðu og verulegu hækkanir á verðlagi þegar samningur var gerður. Hæstiréttur taldi að þær stórfelldu verðhækkanir sem urðu á samningstímanum leiddu til þess að ósanngjarnt væri að bera fyrir sig efni samningsins sem kvað á um óbreyttar greiðslur án verðlagshækkana. Var verðákvæði samningsins því breytt þannig að það yrði sanngjarnt að mati Hæstaréttar. 41. Í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 reyndi m.a. á breytingar á samningum. Í dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 178/2022 var deilt um breytingar á leigusamningi milli fasteignafélags og hótels, þ.e. hvort leigugreiðslum yrði vikið til hliðar á tilteknu tímabili. Landsréttur fjallaði um brostnar forsendur, force majeure og 36. gr. samningalaga í tengslum við áhrif heimsfaraldursins.[24] Eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar 42. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Þar segir jafnframt að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, en til þess þurfi lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Sambærilega reglu er að finna í 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 43. Þegar möguleg skerðing eignarréttar kemur til álita þarf að framkvæma mat sem er í grundvallaratriðum þríþætt. Í fyrsta lagi þarf að slá föstu hvort um ræði eignarréttindi í skilningi framangreindra ákvæða. Í öðru lagi hvort eignarréttindin hafi verið skert og ef svo er í þriðja lagi hvort skerðingin hafi verið lögmæt, þ.e. átt lagastoð, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og að meðalhófs hafi verið gætt við skerðinguna. III.Forsendur 44. Þótt réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóðs njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar felst ekki í slíkum réttindum beint eignarhald á eignum hlutaðeigandi lífeyrissjóðs heldur krafa á hendur sjóðnum um greiðslur úr honum í samræmi við og að uppfylltum skilyrðum laga nr. 129/1997 og samþykkta viðkomandi sjóðs. Ráðstöfun eigna lífeyrissjóðs, þ.m.t. með eftirgjöf kröfuréttinda í eigu slíks sjóðs, verður því ekki lögð að jöfnu við ráðstöfun eigna sjóðfélaga hans. Slíkar ráðstafanir gefa því almennt ekki tilefni til álitaefna um vernd eignarréttinda sjóðfélaga nema að því marki sem þær eru til þess fallnar að leiða af sér skerðingar á réttindum sjóðfélaga samkvæmt lögum nr. 129/1997 og/eða samþykktum viðkomandi sjóðs. 45. Engin vísbending er um að sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar geti leitt af sér skerðingu á réttindum sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs. Heildareignir sjóðsins námu 913 milljörðum í árslok árið 2022 og voru útistandandi sjóðfélagalán 4377 talsins en slík lán námu þá um 10% af eignum sjóðsins.[25]Samkvæmt yfirlýsingu sjóðsins gæti sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar náð til ríflega 40 lántakenda yfir þriggja mánaða tímabil. Í ljósi þess að um er að ræða u.þ.b. 1% sjóðfélagalána hjá sjóðnum, sem saman mynda 10% eigna hans, og stutt tímabil eftirgjafar vaxta og verðbóta virðist mega fullyrða að ráðstöfunin hefði sáralítil áhrif á stöðu lífeyrissjóðsins í hlutfalli við heildareignir og því afar ólíklegt að hún gæti leitt af sér skerðingar á réttindum sjóðfélaga. Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til að ætla að ráðstöfunin geti haft áhrif á eignarréttindi sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs þannig að reynt geti á hvort hún fái samrýmst eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar. 46. Líkt og áður er rakið mæla lög nr. 129/1997 fyrir um meginreglur um starfsemi lífeyrissjóða. Meðal þessara reglna eru reglur sem leggja bann við því að lífeyrissjóður hafi með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná markmiðum laganna og að þeir inni af hendi framlög í öðrum tilgangi. Þá hafa lögin að geyma almennar reglur um fjárfestingar slíkra sjóða sem áskilja að fjármunir þeirra skuli ávaxtaðir samkvæmt fjárfestingarstefnu sem mótuð er og kunngerð af stjórn sjóðs í samræmi við þau sjónarmið sem talin eru í 1.-5. tölul. 1. mgr. 36. gr. og innan marka þeirra reglna sem fram koma í öðrum ákvæðum VII. kafla laganna. Lögin áskilja jafnframt að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda og að stjórn sjóðs geri nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans ef tryggingafræðileg athugun leiðir í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, sbr. 1. og 2. mgr. 39. gr. laganna. Innan þessara og annarra marka laganna hafa lífeyrissjóðir umtalsvert svigrúm til að móta sér fjárfestingarstefnu og taka ákvarðanir samkvæmt henni um einstakar fjárfestingar og framkvæmd þeirra. 47. Við mat á því hvort sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar rúmist innan ofangreindra marka laga nr. 129/1997 er vísað til framangreindar umfjöllunar, þ.e. að um tímabundna ráðstöfun yrði að ræða sem varðar framkvæmd óverulegs fjölda fasteignaveðlána sjóðsins, eða um 1% slíkra lána. Þótt nánari tölulegar upplýsingar um áhrif ráðstöfunarinnar liggi ekki fyrir er engu að síður ljóst að um óverulega ráðstöfun er að ræða með tilliti til heildareigna- og skuldbindinga sjóðsins sem ekki er raunhæft að ætla að haft geti beina þýðingu fyrir tryggingafræðilega stöðu hans eða réttindi sjóðfélaga í sjóðnum. 48. Þá er til þess að líta að ekki væri um örlætisgerning að ræða heldur ráðstöfun kröfuhafa í tilefni af ófyrirséðum og óviðráðanlegum atvikum sem fyrir liggur að hafa haft veruleg áhrif á stöðu hlutaðeigandi skuldara. Telji kröfuhafi í ljósi slíkra atvika óheiðarlegt, ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju eða ósamrýmanlegt trúnaðarskyldu sinni gagnvart skuldara að freista þess við slíkar aðstæður að knýja fram ítrasta rétt sinn er honum rétt samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttarins að falla frá því án þess að talið verði um örlætisgerning að ræða af hans hálfu. 49. Það er kröfuhafa að leggja mat á það hverju sinni í ljósi allra atvika hvernig áðurraktar grundvallarreglur og -sjónarmið samninga- og kröfuréttarins horfa við þeim kröfuréttarsamböndum sem hann á aðild að. Þótt kröfuhafi verði ekki knúinn til að gefa eftir kröfur sínar með vísan til slíkra reglna nema samkvæmt dómi er honum að sama skapi rétt að gera það án undangengins dóms ef hann telur lagaskilyrði uppfyllt til þess. 50. Náttúruhamfarir á borð jarðskjálfta og eldgos eru ótvírætt meðal óviðráðanlegra og ófyrirséðra atvika sem leitt geta til þess að forsendur löggernings teljist brostnar, efndir hans ómögulegar eða ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig óbreyttan. Slík atvik falla að kjarna reglna sem ætlað er að taka til verulegra og óvæntra breytinga á stöðu aðila kröfuréttarsambands sem engin leið var að sjá fyrir þegar löggerningur var gerður.[26] 51. Takmörkuð og tímabundin eftirgjöf vaxta og verðbóta við aðstæður sem þessar teldist ekki gjöf til lántaka eða annars konar örlætisgerningur heldur ráðstöfun í tengslum við framkvæmd fjárfestinga sjóðsins með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og eðlilegum viðskiptaháttum. Álitaefnið lýtur þannig ekki að því hvort lífeyrissjóðnum Gildi sé heimilt að inna af hendi greiðslu án tengsla við fjárfestingar sjóðsins heldur að því hvort tiltekin ráðstöfun sjóðsins við framkvæmd einstakra fjárfestinga hans rúmist innan þeirra almennu marka sem lög nr. 129/1997 setja fjárfestingum lífeyrissjóða. 52. Við nánara mat á þessum mörkum þarf einnig að líta til þess að í þeim felst ekki áskilnaður um að lífeyrissjóðir hafi sérstaka heimild í lögum nr. 129/1997 til allra löggerninga eða athafna sem fylgja starfsemi sjóðs. Lög nr. 129/1997 setja almennan ramma um fjárfestingar lífeyrissjóða en mæla ekki fyrir um framkvæmd þeirra í einstökum atriðum. Að því er varðar skuldabréf tryggð með veði í íbúðarhúsnæði áskilja lögin að veðhlutfall sé ekki umfram 75% af markaðsvirði. Lögin mæla hins vegar ekki nánar fyrir um skilmála slíkra skuldabréfa eða breytingar á þeim heldur eftirláta stjórn lífeyrissjóðs að taka ákvarðanir um slík atriði í samræmi við samþykktir sjóðs og fjárfestingarstefnu hans. Að því er varðar Gildi lífeyrissjóð eru skilmálar slíkra skuldabréfa hvorki ákveðnir í samþykktum sjóðsins né fjárfestingarstefnu hans heldur ráðast þeir af lánareglum sjóðsins og ákvörðunum stjórnar hans. Er þannig ljóst að sjóðurinn hefur talsvert svigrúm innan marka laga nr. 129/1997 til að ákveða skilmála þeirra skuldabréfa, tryggðum með veði í íbúðarhúsnæði, sem hann fjárfestir í. Eðli máls samkvæmt nær þetta svigrúm einnig til þess að gera minniháttar breytingar á skilmálum slíkra skuldabréfa eftir útgáfu þeirra. 53. Að framangreindu virtu verður ekki séð að ráðstöfun á borð við þá sem hér er til umfjöllunar færi í bága við ákvæði laga nr. 129/1997. Í fyrsta lagi myndi slík ráðstöfun rúmast innan þess almenna svigrúms sem lögin veita lífeyrissjóðum til fjárfestinga, þ.m.t. til að ákveða skilmála þeirra lána sem þeir veita og taka ákvarðanir um framkvæmd þeirra. Í öðru lagi verður ekki séð að í slíkri ráðstöfun fælist óheimilt framlag í skilningi 2. mgr. 20. gr. laganna enda ekki um að ræða gjöf eða annars konar örlætisgerning lífeyrissjóðs án tengsla við fjárfestingar hans heldur eðlilega framkvæmd fjárfestinga sjóðsins með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og eðlilegum viðskiptaháttum. Í þriðja lagi verður ekki séð að slík ráðstöfun gengi gegn réttindum sjóðfélaga eða fæli í sér skerðingu þeirra. Að þessu virtu verður ekki séð að lög nr. 129/1997 girði fyrir ráðstöfun sem þessa. 54. Ítrekað skal að lífeyrissjóðir njóta töluverðs svigrúms innan þess ramma sem lög nr. 129/1997 setja starfsemi þeirra til mats á því hvernig þeim markmiðum sem að er stefnt með lögunum verði best náð hverju sinni. Í lögunum, reglum settum samkvæmt þeim, samþykktum Gildis lífeyrissjóðs og reglum og stefnum sjóðsins er sem fyrr segir ekki tekin bein afstaða til þess hvaða skilmálar skuli nánar tiltekið gilda um lánveitingar sjóðsins til sjóðfélaga. Þessir skilmálar ráðast því af ákvörðunum sem stjórn sjóðsins tekur hverju sinni á grundvelli þess svigrúms sem henni er veitt til þess samkvæmt framangreindum lögum og reglum. Innan þess svigrúms rúmast m.a. ákvarðanir sem teknar eru með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og miða að því að taka réttmætt tillit til hagsmuna skuldara og gæta heiðarleika og sanngirni í viðskiptum. Það á einnig við um ákvarðanir sem teknar eru með heildarhagsmuni sjóðsins til lengri tíma litið að leiðarljósi. Benda má á í því sambandi að ekki er unnt að útiloka að ósanngjarnir viðskiptahættir geti til lengri tíma litið haft neikvæð áhrif á orðspor og samkeppnishæfni lífeyrissjóðs. 55. Þess má að lokum geta að lífeyrissjóðir hafa áður gefið eftir af kröfum með stoð í framangreindum lagareglum. Má hér t.d. nefna hina svonefndu 110% leið sem farin var eftir efnahagshrunið 2008 og fólst í niðurfærslu veðkrafna sem voru umfram 110% af verðmæti fasteignar, að gefnum ákveðnum skilyrðum. Úrræðinu var komið á fót með samkomulagi stjórnvalda, Íbúðalánasjóðs, Samtaka fjármálafyrirtækja, Landssamtök lífeyrissjóða og Dróma hf. 15. janúar 2011, en ekki voru sett sérstök lög til að heimila lífeyrissjóðum að bjóða upp á leiðina og var hún talist rúmast innan laga nr. 129/1997. IV. Niðurstöður 56. Í áliti þessu er leitað svara við því hvort lífeyrissjóðurinn Gildi hafi heimild að lögum til þess að gefa eftir kröfur á hendur lántakendum með því að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara. Með vísan til framangreindra röksemda eru niðurstöður álitsins samandregnar: Það leiðir ekki af lögum nr. 129/1997 eða öðrum lögum að lífeyrissjóðnum Gildi sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara. Niðurfelling vaxta og verðbóta við þær aðstæður sem nú eru í Grindavík eiga stoð í heimildum til rekstrar sjóðsins skv. lögum nr. 129/1997 og meginreglum samninga- og kröfuréttar, eftir atvikum eins og þær hafa verið lögfestar þ.m.t. í lögum nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Niðurfellingin myndi ekki fela í sér inngrip í eignarréttindi sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs sem væri andstætt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. --- 57. Endanleg niðurstaða um lögfræðileg álitaefni er í höndum dómstóla. Umfjöllun í þessu áliti er ætlað að vera samantekt á þeim lagareglum og sjónarmiðum sem þýðingu hafa við úrlausn málsins. Ekki um að ræða tæmandi upptalningu á dómum, umfjöllun fræðimanna eða öðrum atriðum sem varða álitaefnið. Verði eftir því óskað getur MAGNA fjallað ítarlegar um einstök atriði. Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags GrindavíkurRagnar Þór Ingólfsson formaður VREinar Hannes Harðarson formaður Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur [1] https://www.gildi.is/frettir/upplysingar-fyrir-lantakendur-i-grindavik/. [2] https://www.gildi.is/frettir/almennar-nidurfellingar-vaxta-og-verdbota-oheimilar/. [3] https://gildi.overcastcdn.com/documents/%C3%81lit_LEX_-_almenn_ni%C3%B0urfelling_%C3%A1_kr%C3%B6fum.pdf [4] Ragnhildur Helgadóttir: ,,Stjórnskipunin og meðferð á fé lífeyrissjóða’’ Stjórnmál og stjórnsýsla (2013, 1. tbl.), bls. 193. [5] Alþingistíðindi, 1997-1998, þskj. 294 - 249. mál, um 20. gr. [6] https://www.gildi.is/lan/lanareglur/. [7] Alþingistíðindi, 1997-1998, þskj. 294 - 249. mál, fjárreiður og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. [8] https://gildi.overcastcdn.com/documents/Fj%C3%A1rfestingarstefna_2024.pdf, bls. 3. [9] Stefán A. Svensson: ,,Úrræði lánveitanda við vanefndir lántaka I'' ,Tímarit Lögréttu (2010, 1. tbl.) bls. 15. [10] Viðar Már Matthíasson: ,,Trúnaðarskylda við gerð, framkvæmd og slit samninga‘‘, Úlfljótur (2000, 2. tbl.), bls. 193. [11] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 93. [12] Viðar Már Matthíasson: ,,Trúnaðarskylda við gerð, framkvæmd og slit samninga‘‘, Úlfljótur (2000, 2. tbl.), bls. 194. [13] Lögin gilda m.a. um fasteignalán lífeyrissjóða, sbr. gildissviðsákvæði 2. gr. laganna. Þar kemur fram að gildissvið laganna sé afmarkað við samninga um fasteignalán sem lánveitandi eða lánamiðlari kynnir eða gerir í atvinnuskyni við neytendur. Lánveitandi er samkvæmt 18. tl. 1. mgr. 4. gr. laganna lögaðili sem veitir eða lofar að veita fasteignalán í atvinnuskyni. [14] Alþingistíðindi, 2015-2016, þskj. 519 - 383. mál, um 5. gr. [15]Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur II, bls. 182. [16] Viðar Már Matthíasson: „Álitsgerð um reglur sem gera ráð fyrir að tilgreind atvik geti haft áhrif á skyldu til að efna samninga“, bls. 4. Sjá: https://www.mbl.is/media/78/11378.pdf. [17] Viðar Már Matthíasson: ,,Tímabundið brottfall efndaskyldu vegna hindrana er leiða af COVID-19 sjúkdómnum‘‘ Úlfljótur (2021, 1. tbl.), bls. 127-128. [18] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur II, bls. 165. [19] Ása Ólafsdóttir: Ógildingarreglur samningaréttar, bls. 226. [20] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 167. [21] Ása Ólafsdóttir: Ógildingarreglur samningaréttar, bls. 226. [22] Hér má einnig nefna sjónarmið um að samningur geti talist „óvirkur“ vegna breytinga á aðstæðum, sem höfðu þýðingu við ákvörðun loforðsgjafa um að skuldbinda sig. Slík loforð verða hvorki efnd samkvæmt aðalefni né með greiðslu bóta. Óvirkt loforð er þannig ekki ógilt en hefur samt ekki áhrif samkvæmt efni sínu, a.m.k. ekki full áhrif. (sjá Kröfuréttur II, bls 40). [23] Sjá t.d. dóm Hæstaréttar 11. apríl 2017 í málin nr. 495/2016. [24] Þá má einnig nefna dóm Hæstaréttar 28. júní 2023 í máli nr. 4/2023 þar sem deilt var um afpöntun utanlandsferðar degi fyrir brottför vegna útbreiðslu Covid-19 faraldursins. Í rökstuðningi Hæstaréttar voru lagaákvæði m.a. túlkuð með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem almennt gilda um force majeure. [25] Ársskýrsla Gildis lífeyrissjóðs 2022. https://gildi.overcastcdn.com/documents/%C3%81rssk%C3%BDrsla_Gildis_2022_-_vefur.pdf [26] Viðar Már Matthíasson: ,,Tímabundið brottfall efndaskyldu vegna hindrana er leiða af COVID-19 sjúkdómnum‘‘ Úlfljótur (2021, 1. tbl.), bls. 127. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnar Þór Ingólfsson Grindavík Lífeyrissjóðir Mest lesið Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson Skoðun Maður á sviði: Narsissisti í nánu sambandi Hrafnhildur Sigmarsdóttir Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh Skoðun Þjóðleiðir Íslands Högni Elfar Gylfason Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson Skoðun Köld eru kvennaráð – eða hvað? Halla Hrund Logadóttir Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson Skoðun Skoðun Skoðun Siðferði og ábyrgð – lykillinn að trausti Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Áhrifaleysið – trúa menn því virkilega? Andrés Pétursson skrifar Skoðun Íslenskur útgerðarmaður, evrópsk verkakona Sigurgeir B. Kristgeirsson skrifar Skoðun Embættismenn og stjórnmálamenn 30 ára Pétur Berg Matthíasson skrifar Skoðun Sýrland í stuttu máli Omran Kassoumeh skrifar Skoðun Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis? Ólafur Ágúst Hraundal skrifar Skoðun Eftirlifendur fá friðarverðlaun Andrés Ingi Jónsson skrifar Skoðun Við getum stöðvað kynbundið ofbeldi Hildur Guðbjörnsdóttir skrifar Skoðun Dýravelferð dýranna Árni Alfreðsson skrifar Skoðun Réttur kvenna til lífs Ólöf Embla Eyjólfsdóttir skrifar Skoðun Bílastæði eru hættulegri en þú heldur Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Fimmtíu ár frá Kvennafrídeginum árið 2025 Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Framtíðarsýn skóla og frístundastarfs í Lauganes- og Langholtshverfi Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Getur rafmagnið lært af símanum? Sigurður Jóhannesson skrifar Skoðun „Fé fylgi sjúklingi – ný útfærsla“ Teitur Guðmundsson skrifar Skoðun Aðgengi og lífsgæði eldri borgara í stafrænni framtíð: Hvað getum við gert betur? Hildur María Friðriksdóttir skrifar Skoðun Loftslagsmál eru orkumál Nótt Thorberg skrifar Skoðun Lánakvótar opna á nýja möguleika í hagstjórn Hallgrímur Óskarsson skrifar Skoðun Tímaskekkja í velferðarríki Stefán Þorri Helgason skrifar Skoðun Ahimsa: Siðferði kjöts og innflytjendamála Rajan Parrikar skrifar Skoðun Valkyrjustjórnin skyldi íslensk flugfélög til gæludýraflutninga í farþegaflugvélum Árni Stefán Árnason skrifar Skoðun Stigmögnun ofbeldis í nánum samböndum Kristín Snorradóttir skrifar Skoðun Brottvísanir frá sjónarhorni íslenskukennara Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar Skoðun Mun ný ríkisstjórn Íslands endurskoða hvalveiðileyfið? Elissa Phillips skrifar Skoðun Hvernig tryggjum við raforkuöryggi almennings til framtíðar? Dagur Helgason skrifar Skoðun Erindisleysa Kennarasambandsins Ólafur Hauksson skrifar Skoðun Óvenjuleg hálka Sara Oskarsson skrifar Skoðun Það eru margar leiðir til að lækka vexti Ólafur Margeirsson skrifar Skoðun Voru aðdragandi og úrslit þingkosninga lýðræðisleg? Tómas Ellert Tómasson skrifar Skoðun Krísan sem heimurinn hundsar: kynbundið ofbeldi í átökum Birta B. Kjerúlf ,Kjartan Ragnarsson skrifar Sjá meira
Lífeyrissjóðirnir hafa fullyrt að þeim sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur, tímabundið í þrjá mánuði, á húsnæðislánum Grindvíkinga. Og fylgja þannig fordæmi bankanna. Lífeyrissjóðurinn Gildi og Landssamtök lífeyrissjóða hafa borið fyrir sig lögfræðiáliti sem kemst að þessari niðurstöðu sem verður að teljast í besta falli fjarstæðukennd tilraun til að slá ryki í augu almennings. Stjórnendur Gildis hafa látið í veðri vaka að lagabreytingar þurfi til að hægt sé að fara í almennar aðgerðir sem þessar, án þess þó að hafa kallað eftir slíkum breytingum eða bent á hvaða lögum þarf að breyta. Við höfum ítrekað bent á þá staðreynd að ekkert er í lögum sem bannar sjóðunum að fara að fordæmi bannkanna og ljóst sé að um fyrirslátt sé að ræða hjá lífeyrissjóðunum. Nú höfum fengið í hendur lögfræðiálit sem tekur af vafa um hvað sjóðunum sé heimilt og hvað ekki. Niðurstaðan er skýr og hafa sjóðirnir fulla heimild til að fylgja fordæmi bankanna. Einnig hafa þeir lagalega skyldu til að koma til móts við Grindvíkinga. Við hvetjum ykkur til að lesa álitið sem er meðfylgjandi neðar í greininni. Það er langt og ítarlegt en vel þess virði að lesa til enda. Hörður, Ragnar og Einar Hannes ÁLITSGERÐ Frá: MAGNA lögmönnum Til: Verkalýðsfélags Grindavíkur Dags: 5. janúar 2024 Efni: Heimild Gildis lífeyrissjóðs til að gefa eftir vexti og verðbætur fasteignalána vegna náttúruhamfara í Grindavík I. Málavextir og helstu álitaefni 1. Hinn 10. nóvember 2023 lýstu almannavarnir yfir neyðarstigi í Grindavíkurbæ vegna jarðhræringa. Samhliða tók lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvörðun um rýmingu Grindavíkurbæjar. Síðan þá hefur nánast samfleytt ríkt hættustig í bænum og eldgos stóð yfir rétt fyrir utan bæinn 18. – 21. desember 2023. 2. Þó íbúum Grindavíkur hafi verið heimilt að dvelja á heimilum sínum frá 23. desember sl. er mikill viðbúnaður enda miklar líkur á fleiri atburðum. Hafa flestir íbúar því verið frá heimilum sínum í tæpa tvo mánuði og mikil óvissa er um framhaldið. 3. Af þessum sökum gerðu stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, samkomulag hinn 22. nóvember 2023, um að felldir yrðu niður vextir og verðbætur í þrjá mánuði hjá lántakendum í Grindavík, sem hefðu heildarlán undir 50.000.000,- krónum. Áður höfðu bankarnir veitt lántakendum á svæðinu heimild til þess að fresta afborgunum af íbúðarlánum sínum í sex mánuði. 4. Húsnæðislán Grindvíkinga eru þó ekki einungis hjá stóru viðskiptabönkunum og hefur hópur Grindvíkinga tekið húsnæðislán hjá lífeyrissjóðum, m.a. hjá Gildi lífeyrissjóði. 5. Stjórn Gildis lífeyrissjóðs hefur tekið ákvörðun um að íbúum bæjarins sem eru lántakendur hjá þeim standi til boða greiðsluskjól, þar sem unnt er að óska eftir fresti á afborgunum, vöxtum og verðbótum sjóðfélagalána.[1] 6. Gildi lífeyrissjóður hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um að veita lántakendum niðurfellingu vaxta og verðbóta, með sambærilegum hætti og viðskiptabankarnir. Hinn 13. desember 2023 birti lífeyrissjóðurinn Gildi tilkynningu um að almennar niðurfellingar vaxta og verðbóta væru óheimilar.[2] 7. Vísað var til þess að niðurstaða álitsgerðar LEX lögmannsstofu[3] væri sú að lífeyrissjóðum væri ekki heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum. Í því sambandi var tekið fram að lífeyrissjóðum væri óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en til að greiða lífeyri. 8. Tekið var fram að samkvæmt áðurnefndri álitsgerð væri lífeyrissjóðnum heimilt að taka til sérstakrar skoðunar einstaklingsbundnar aðstæður. Því myndi Gildi meta stöðu einstakra lántakenda sjóðsins í Grindavík og skoða sérstaklega hvernig væri hægt að koma til móts við þá sem höllum fæti stæðu út frá greiðslugetu og veðstöðu. Staðan á svæðinu væri þó enn um margt óljós og erfitt væri að meta hvenær kæmi til slíkra aðgerða. 9. Í kjölfarið eða 13. desember 2023 sendu Landssamtök lífeyrissjóða efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis minnisblað sama efnis. 10. Af framangreindu tilefni hefur verið óskað eftir lagalegu áliti á því hvort lífeyrissjóðurinn Gildi hafi heimild að lögum til þess að gefa eftir kröfur á hendur lántakendum með því að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum. 11. Óumdeilt er að almennar reglur um fjármálafyrirtæki og réttarsamband kröfuhafa og skuldara fasteignalána girða ekki fyrir að lánveitandi geri ráðstafanir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, enda liggur fyrir að allir stóru viðskiptabankarnir hafa gripið til samsvarandi ráðstafana gagnvart viðskiptavinum sínum án þess að því hafi verið haldið fram að þær gangi í berhögg við þessar almennu reglur. Við úrlausn um fyrirliggjandi álitaefni reynir því fyrst og fremst á það hvort ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða feli í sér sérstakar takmarkanir á heimildum lífeyrissjóða, umfram heimildir annarra lánveitenda, sem girði fyrir að slíkum sjóðum sé heimilt að ráðstafa réttindum sínum með þessum hætti. II. Lagagrundvöllur Lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða 12. Gildandi lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er nr. 129/1997 (framvegis lsjl. eða lög nr. 129/1997). Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna gilda lögin um alla lífeyrissjóði og samninga um tryggingavernd eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er með lífeyrissjóði átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í I.-III. köflum laganna. 13. Ekkert markmiðsákvæði er að finna í lögunum en markmið þeirra er talið leiða af lokamálslið síðastnefndrar 1. gr. laganna, þ.e. að tryggja öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi lífeyrisréttindi.[4] 14. Í IV. kafla laganna er fjallað nánar um lífeyrissjóðsrekstur. Í upphafsákvæði kaflans, 1. mgr. 20. gr. laganna, er kveðið á um að starfsemi lífeyrissjóðs skuli lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal lífeyrissjóður ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem er nauðsynleg til að ná þeim tilgangi er um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. gr. ákvæðisins. Lífeyrissjóði er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi. Í athugasemdum með 20. gr. frumvarpsins því er varð að lögum nr. 129/1997 kemur fram að ákvæðið sé nauðsynlegt með hliðsjón af þeim markmiðum sem lífeyrissjóður á að keppa að, þ.e. að greiða sem hæstan lífeyri á hverjum tíma.[5] 15. Um fjárfestingar lífeyrissjóðs er fjallað nánar í VII. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skal stjórn lífeyrissjóðs móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans og ávaxta fé sjóðsins og einstakra deilda hans í samræmi við þær reglur sem taldar eru í 1-.5. tölul. og innan þeirra marka sem tilgreind eru í kaflanum. Í 1.-5. tölul. ákvæðisins er síðan tekið fram (1) að lífeyrissjóður skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi, (2) að horft skuli til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar, (3) að allar fjárfestingar skuli byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga, (4) að þess skuli gætt að eignir sjóðsins séu nægilega fjölbreyttar til að komið sé í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu og loks (5) að lífeyrissjóður skuli setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. 16. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. a er lífeyrissjóði heimilt að ávaxta fé, sem ætlað er til að veita lágmarkstryggingavernd, í innlánum viðskiptabanka og sparisjóða, fjármálagerningum og fasteignum, að uppfylltum nánari skilyrðum VII. kafla. Samkvæmt 2. mgr. skal lífeyrissjóður flokka eignir sínar í eignarflokka A-F eins og nánar greinir í 1-.6. tölul. ákvæðisins. 17. Samkvæmt b.-lið 1. tölul. 2. mgr. 36. gr. a. laganna getur lífeyrissjóður m.a. fjárfest í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign, enda fari veðhlutfall ekki umfram 75% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis eða 50% af markaðsvirði annarra fasteigna. Um slík fasteignalán er nánar kveðið í lánareglum Gildis lífeyrissjóðs.[6] 18. Um fjárreiður lífeyrissjóða kemur nánar fram í almennum athugasemdum við frumvarpið: „Í frumvarpinu er að finna meginreglur um heimildir lífeyrissjóða til að ávaxta eignir sínar á grundvelli fyrir fram kunngerðrar fjárfestingarstefnu. Hér þarf að hafa í huga að eitt af verkefnum sjóðanna er að ávaxta eignir þannig að þeir verði sem best færir um að greiða lífeyri þegar fram í sækir. Að hinu leytinu þarf að hafa í huga að sjóðirnir taki ekki óeðlilega áhættu í ráðstöfun og ávöxtun eigna sem geti rýrt lífeyri einstaklinga úr hófi. Því er gerð almenn krafa um aðgát í fjárfestingu þó svo að heimildir sjóðanna til að fjárfesta innan lands sem utan séu sniðnar að því fjármálaumhverfi sem nú er að ryðja sér til rúms.‘‘[7] 19. Í 29. gr. laganna er mælt fyrir um að stjórn sjóðs beri ábyrgð á starfsemi hans og að hún sé í samræmi við lögin, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir viðkomandi sjóðs. Þannig er m.a. á höndum stjórnarinnar að móta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins sbr. 3. tl. 3. mgr. 29. gr. laganna. 20. Um störf sjóðsins er nánar kveðið í 31. gr. laganna en samkvæmt 5. mgr. ákvæðisins annast framkvæmdarstjóri daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðsstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdarstjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðsstjórn. 21. Samkvæmt fjárfestingastefnu Gildis lífeyrissjóðs heyrir framkvæmd fjárfestingarstefnu undir framkvæmdastjóra og eignastýringu Gildis, þ.m.t. öll dagleg starfsemi við fjárfestingar.[8] 22.L jóst er þannig að það er hlutverk framkvæmdarstjóra og eignastýringar að annast fasteignalán til sjóðfélaga og að slík verkefni teljast til daglegrar starfsemi sjóðsins. Almennar reglur samninga- og kröfuréttarins 23. Samkvæmt íslenskum rétti hefur verið talið að viss trúnaðarskylda (einnig kölluð tillitsskylda) gildi við gerð, framkvæmd og slit samninga.[9] 24. Inntaki hinnar svonefndu tillitsskyldu hefur m.a. verið lýst þannig að samningsaðila beri skylda til þess að láta ekki eigin hagsmuni ráða alfarið athöfnum sínum eða athafnaleysi í samningssambandinu, heldur verði þeir, innan ákveðinna marka að taka tillit til hagsmuna viðsemjandans.[10] 25. Tillitsskyldan hefur m.a. verið talin fela í sér eftirfarandi: „Tillitsskylda getur birst í þeirri mynd, að samningsaðila sé ekki stætt á því að halda fram ítrasta rétti samkvæmt samningi, ef það leiðir til ósanngjarnar niðurstöðu fyrir gagnaðila. Af því leiðir, að samningsaðili getur þurft að fallast á tilteknar breytingar á samningi, ef það hefur ekki í för með sér teljandi kostnað, áhættu eða óhagræði fyrir hann, sbr. sjónarmið að baki reglu 36. gr. smnl.‘‘[11] 26. Trúnaðar- og tillitsskyldur eru afstæðar en þær eru almennt ríkari í langtímasamningssamböndum. Að sama skapi er ríkari tillitsskylda í tilfelli stofnana sem annast lánveitingar til neytenda, en í annarskonar samningssamböndum, en framangreint leiðir einna helst af þeim mikla aðstöðumun sem er á milli aðila við samningsgerð.[12] 27. Um þessa ríku tillitsskyldu lánastofnana hefur ítrekað verið fjallað í dómaframkvæmd en sem dæmi má nefna dóm Hæstaréttar frá 16. febrúar 1995 í máli nr. 445/1992 og dóm Landsréttar frá 29. nóvember 2019 í máli nr. 118/2019. 28. Auk þess að vera almenn meginregla birtist framangreind regla einnig í einstökum lagaákvæðum. Þannig má t.d. finna regluna í lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.[13]Markmið laganna, samkvæmt 1. gr. þeirra, er að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda. Markmið laganna er jafnframt að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna við óhóflegri skuldsetningu neytenda. 29. Í 5. gr. kemur fram að lánveitendur og lánamiðlarar skuli í öllum störfum sínum sem falla undir gildissvið laganna, starfa af heiðarleika, sanngirni og gagnsæi með fagmennsku að leiðarljósi og hafa réttindi og hagsmuni neytenda í huga. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal lánveiting, lánamiðlun og veiting lánaráðgjafar byggjast á upplýsingum um aðstæður neytanda og tekið skal tillit til óska sem neytandi kemur sérstaklega á framfæri. Jafnframt skal byggt á eðlilegum forsendum varðandi hugsanlegar breytingar á aðstæðum neytanda á lánstímanum. 30. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 118/2016 kemur m.a. eftirfarandi fram: „Ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, fjalla almennt um viðskiptahætti fyrirtækja gagnvart neytendum. Því koma ákvæði þeirra laga jafnframt til álita varðandi háttsemi lánveitenda og lánamiðlara gagnvart neytendum. Þó verður að líta til þess að mat á góðum viðskiptaháttum samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu miðar við hinn almenna neytanda en gera verður strangari kröfur til þess að lánveiting, lánamiðlun og veiting lánaráðgjafar samkvæmt frumvarpi þessu miði að þörfum þess neytanda sem í hlut á, þar sem það á við.‘‘[14] 31. Af framangreindu leiðir að við framkvæmd lánasamninga, á borð við fasteignalánasamninga íbúa Grindavíkur við Gildi lífeyrissjóð, gilda ríkar tillitsskyldur. Í þeim skyldum lánveitanda getur falist að lífeyrissjóðnum sé ekki rétt að halda fram ítrasta rétti við lántakendur og jafnvel að sjóðnum sé rétt að fallast á breytingar samningsins. Umfang eftirgjafarinnar og heildarsamhengi getur þar skipt máli. 32. Almennt er viðurkennt í íslenskum samninga- og kröfurétti að breyttar aðstæður geta heimilað að breyting verði gerð á viðvarandi samningi, einkum langtímasamningi þar sem aðstæður hafa breyst verulega.[15]Þær breyttu aðstæður sem hér eiga við geta allt í senn fallið undir meginreglur um force majeure, brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 33. Að íslenskum kröfurétti gildir almenn meginregla um óviðráðanleg ytri atvik eða svokölluð force majeure regla. Reglan hefur verið skilgreind með þeim hætti að hún vísi til ófyrirséðra, óviðráðanlegra ytri atvika, sem séu sérstök í eðli sínu, og valdi því að ómögulegt eða því sem næst sé að efna samningsskuldbindingu, og eigi þau þá að hafa áhrif á efndaskylduna, eða hvort og hvaða vanefndum megi beita.[16] 34. Til þess að ómöguleiki sé talinn vera fyrir hendi verða að vera til staðar orsakatengsl á milli hins ófyrirséða og óviðráðanlega atviks og möguleika á efndum skuldbindingar. Efndir þurfa raunar ekki að vera ómögulegar til þess að reglan eigi við heldur á hún jafnframt við í tilvikum þar sem efndir krefðust svo mikils kostaðar eða erfiðleika fyrir skuldara að það væri ósanngjarnt.[17] 35. Samningsaðilar hafa jafnan ástæður fyrir því að ganga til samninga. Þær ástæður eða hvatir sem eru teknar berum orðum fram í samningi eru nefnd fyrirvarar eða skilyrði. Ástæður eða hvatir samningsaðila sem ekki eru gerðar að skilyrði samningsins eru nefndar forsendur.[18] 36. Með brostnum forsendum er átt við staðreyndir sem koma til eftir að samningur var gerður sem hafa afgerandi áhrif á vilja manns til að efna samning.[19]Þegar grundvallarástæður aðila fyrir samningnum bresta (forsendubrestur) getur það leitt til þess að aðili samnings leysist undan skuldbindingu sinni í heild eða að hluta[20], þ.e. ógildingar samnings eða breytinga á honum. Skiptir þá ekki öllu máli hvort um er að ræða skilyrði sem tekið var beint upp í samninginn eða forsendu sem lá að baki samningnum án þess að rata inn í orðalag hans. 37. Við mat á því hvort forsenda geti talist veruleg og hvort rétt sé að forsendubrestur leiði til breytinga á samningi geta ýmis atriði komið til skoðunar. Útgangspunkturinn er á endanum sanngirnis- og hagsmunamat þar sem tillit skal taka til allra atvika og beggja samningsaðila.[21]Það sanngirnismat sem framkvæma skal við mat á brostnum forsendum skarast þannig oft við mat á því hvort rétt sé að breyta samningi með stoð í almennri sanngirnisreglu 36. gr. samningalaga.[22] 38. Samkvæmt 36. gr. samningalaga má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig. Líta skal til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð og atvika sem síðar koma til. Öll viðeigandi atriði skulu þannig notuð til að framkvæma heildstætt sanngirnismat á stöðu samningsins. 39. Dómstólar hafa margoft beitt ákvæði 36. gr. samningalaga til þess að breyta samningum. Má hér nefna sem dæmi að lánveitendur, m.a. lífeyrissjóðir, þurftu að fella niður fjölmargar tryggingar fyrir lánum (bæði sjálfskuldarábyrgðir og veð í fasteignum) vegna dómsmála sem vörðuðu ófullnægjandi mat á greiðslugetu aðalskuldara.[23]Rétt er að taka fram að í málunum þurfti almennt ekki að líta til stöðu lána eða greiðslugetu ábyrgðarmanns. Aðstæðurnar voru nægjanlegar, einar og sér, til þess að sanngjarnt teldist að gera breytingar á samningi. 40. Atvik sem verða eftir samningsgerð hafa leitt til þess að sanngjarnt sé að gera breytingar á samningi. Sem dæmi um tilvik sem geta talist sambærileg og hér á við, þ.e. ófyrirsjáanlegar og óviðráðanleg ytri atvik, má nefna dóm Hæstaréttar 21. júní 2011 í máli nr. 542/2010. Í málinu var deilt um hvort efnahagshrunið sem varð á Íslandi 2008, og sú aðstaða sem skapaðist eftir það, gæti leitt til breytinga á samningi um byggingu sundlaugar. Hæstiréttur taldi að hvorugur samningsaðili hefði getað séð fyrir hinar ófyrirséðu og verulegu hækkanir á verðlagi þegar samningur var gerður. Hæstiréttur taldi að þær stórfelldu verðhækkanir sem urðu á samningstímanum leiddu til þess að ósanngjarnt væri að bera fyrir sig efni samningsins sem kvað á um óbreyttar greiðslur án verðlagshækkana. Var verðákvæði samningsins því breytt þannig að það yrði sanngjarnt að mati Hæstaréttar. 41. Í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 reyndi m.a. á breytingar á samningum. Í dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 178/2022 var deilt um breytingar á leigusamningi milli fasteignafélags og hótels, þ.e. hvort leigugreiðslum yrði vikið til hliðar á tilteknu tímabili. Landsréttur fjallaði um brostnar forsendur, force majeure og 36. gr. samningalaga í tengslum við áhrif heimsfaraldursins.[24] Eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar 42. Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Þar segir jafnframt að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, en til þess þurfi lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Sambærilega reglu er að finna í 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 43. Þegar möguleg skerðing eignarréttar kemur til álita þarf að framkvæma mat sem er í grundvallaratriðum þríþætt. Í fyrsta lagi þarf að slá föstu hvort um ræði eignarréttindi í skilningi framangreindra ákvæða. Í öðru lagi hvort eignarréttindin hafi verið skert og ef svo er í þriðja lagi hvort skerðingin hafi verið lögmæt, þ.e. átt lagastoð, byggi á málefnalegum sjónarmiðum og að meðalhófs hafi verið gætt við skerðinguna. III.Forsendur 44. Þótt réttindi sjóðfélaga lífeyrissjóðs njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar felst ekki í slíkum réttindum beint eignarhald á eignum hlutaðeigandi lífeyrissjóðs heldur krafa á hendur sjóðnum um greiðslur úr honum í samræmi við og að uppfylltum skilyrðum laga nr. 129/1997 og samþykkta viðkomandi sjóðs. Ráðstöfun eigna lífeyrissjóðs, þ.m.t. með eftirgjöf kröfuréttinda í eigu slíks sjóðs, verður því ekki lögð að jöfnu við ráðstöfun eigna sjóðfélaga hans. Slíkar ráðstafanir gefa því almennt ekki tilefni til álitaefna um vernd eignarréttinda sjóðfélaga nema að því marki sem þær eru til þess fallnar að leiða af sér skerðingar á réttindum sjóðfélaga samkvæmt lögum nr. 129/1997 og/eða samþykktum viðkomandi sjóðs. 45. Engin vísbending er um að sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar geti leitt af sér skerðingu á réttindum sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs. Heildareignir sjóðsins námu 913 milljörðum í árslok árið 2022 og voru útistandandi sjóðfélagalán 4377 talsins en slík lán námu þá um 10% af eignum sjóðsins.[25]Samkvæmt yfirlýsingu sjóðsins gæti sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar náð til ríflega 40 lántakenda yfir þriggja mánaða tímabil. Í ljósi þess að um er að ræða u.þ.b. 1% sjóðfélagalána hjá sjóðnum, sem saman mynda 10% eigna hans, og stutt tímabil eftirgjafar vaxta og verðbóta virðist mega fullyrða að ráðstöfunin hefði sáralítil áhrif á stöðu lífeyrissjóðsins í hlutfalli við heildareignir og því afar ólíklegt að hún gæti leitt af sér skerðingar á réttindum sjóðfélaga. Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til að ætla að ráðstöfunin geti haft áhrif á eignarréttindi sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs þannig að reynt geti á hvort hún fái samrýmst eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar. 46. Líkt og áður er rakið mæla lög nr. 129/1997 fyrir um meginreglur um starfsemi lífeyrissjóða. Meðal þessara reglna eru reglur sem leggja bann við því að lífeyrissjóður hafi með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná markmiðum laganna og að þeir inni af hendi framlög í öðrum tilgangi. Þá hafa lögin að geyma almennar reglur um fjárfestingar slíkra sjóða sem áskilja að fjármunir þeirra skuli ávaxtaðir samkvæmt fjárfestingarstefnu sem mótuð er og kunngerð af stjórn sjóðs í samræmi við þau sjónarmið sem talin eru í 1.-5. tölul. 1. mgr. 36. gr. og innan marka þeirra reglna sem fram koma í öðrum ákvæðum VII. kafla laganna. Lögin áskilja jafnframt að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda og að stjórn sjóðs geri nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans ef tryggingafræðileg athugun leiðir í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, sbr. 1. og 2. mgr. 39. gr. laganna. Innan þessara og annarra marka laganna hafa lífeyrissjóðir umtalsvert svigrúm til að móta sér fjárfestingarstefnu og taka ákvarðanir samkvæmt henni um einstakar fjárfestingar og framkvæmd þeirra. 47. Við mat á því hvort sú ráðstöfun sem hér er til umfjöllunar rúmist innan ofangreindra marka laga nr. 129/1997 er vísað til framangreindar umfjöllunar, þ.e. að um tímabundna ráðstöfun yrði að ræða sem varðar framkvæmd óverulegs fjölda fasteignaveðlána sjóðsins, eða um 1% slíkra lána. Þótt nánari tölulegar upplýsingar um áhrif ráðstöfunarinnar liggi ekki fyrir er engu að síður ljóst að um óverulega ráðstöfun er að ræða með tilliti til heildareigna- og skuldbindinga sjóðsins sem ekki er raunhæft að ætla að haft geti beina þýðingu fyrir tryggingafræðilega stöðu hans eða réttindi sjóðfélaga í sjóðnum. 48. Þá er til þess að líta að ekki væri um örlætisgerning að ræða heldur ráðstöfun kröfuhafa í tilefni af ófyrirséðum og óviðráðanlegum atvikum sem fyrir liggur að hafa haft veruleg áhrif á stöðu hlutaðeigandi skuldara. Telji kröfuhafi í ljósi slíkra atvika óheiðarlegt, ósanngjarnt, andstætt góðri viðskiptavenju eða ósamrýmanlegt trúnaðarskyldu sinni gagnvart skuldara að freista þess við slíkar aðstæður að knýja fram ítrasta rétt sinn er honum rétt samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttarins að falla frá því án þess að talið verði um örlætisgerning að ræða af hans hálfu. 49. Það er kröfuhafa að leggja mat á það hverju sinni í ljósi allra atvika hvernig áðurraktar grundvallarreglur og -sjónarmið samninga- og kröfuréttarins horfa við þeim kröfuréttarsamböndum sem hann á aðild að. Þótt kröfuhafi verði ekki knúinn til að gefa eftir kröfur sínar með vísan til slíkra reglna nema samkvæmt dómi er honum að sama skapi rétt að gera það án undangengins dóms ef hann telur lagaskilyrði uppfyllt til þess. 50. Náttúruhamfarir á borð jarðskjálfta og eldgos eru ótvírætt meðal óviðráðanlegra og ófyrirséðra atvika sem leitt geta til þess að forsendur löggernings teljist brostnar, efndir hans ómögulegar eða ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig óbreyttan. Slík atvik falla að kjarna reglna sem ætlað er að taka til verulegra og óvæntra breytinga á stöðu aðila kröfuréttarsambands sem engin leið var að sjá fyrir þegar löggerningur var gerður.[26] 51. Takmörkuð og tímabundin eftirgjöf vaxta og verðbóta við aðstæður sem þessar teldist ekki gjöf til lántaka eða annars konar örlætisgerningur heldur ráðstöfun í tengslum við framkvæmd fjárfestinga sjóðsins með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og eðlilegum viðskiptaháttum. Álitaefnið lýtur þannig ekki að því hvort lífeyrissjóðnum Gildi sé heimilt að inna af hendi greiðslu án tengsla við fjárfestingar sjóðsins heldur að því hvort tiltekin ráðstöfun sjóðsins við framkvæmd einstakra fjárfestinga hans rúmist innan þeirra almennu marka sem lög nr. 129/1997 setja fjárfestingum lífeyrissjóða. 52. Við nánara mat á þessum mörkum þarf einnig að líta til þess að í þeim felst ekki áskilnaður um að lífeyrissjóðir hafi sérstaka heimild í lögum nr. 129/1997 til allra löggerninga eða athafna sem fylgja starfsemi sjóðs. Lög nr. 129/1997 setja almennan ramma um fjárfestingar lífeyrissjóða en mæla ekki fyrir um framkvæmd þeirra í einstökum atriðum. Að því er varðar skuldabréf tryggð með veði í íbúðarhúsnæði áskilja lögin að veðhlutfall sé ekki umfram 75% af markaðsvirði. Lögin mæla hins vegar ekki nánar fyrir um skilmála slíkra skuldabréfa eða breytingar á þeim heldur eftirláta stjórn lífeyrissjóðs að taka ákvarðanir um slík atriði í samræmi við samþykktir sjóðs og fjárfestingarstefnu hans. Að því er varðar Gildi lífeyrissjóð eru skilmálar slíkra skuldabréfa hvorki ákveðnir í samþykktum sjóðsins né fjárfestingarstefnu hans heldur ráðast þeir af lánareglum sjóðsins og ákvörðunum stjórnar hans. Er þannig ljóst að sjóðurinn hefur talsvert svigrúm innan marka laga nr. 129/1997 til að ákveða skilmála þeirra skuldabréfa, tryggðum með veði í íbúðarhúsnæði, sem hann fjárfestir í. Eðli máls samkvæmt nær þetta svigrúm einnig til þess að gera minniháttar breytingar á skilmálum slíkra skuldabréfa eftir útgáfu þeirra. 53. Að framangreindu virtu verður ekki séð að ráðstöfun á borð við þá sem hér er til umfjöllunar færi í bága við ákvæði laga nr. 129/1997. Í fyrsta lagi myndi slík ráðstöfun rúmast innan þess almenna svigrúms sem lögin veita lífeyrissjóðum til fjárfestinga, þ.m.t. til að ákveða skilmála þeirra lána sem þeir veita og taka ákvarðanir um framkvæmd þeirra. Í öðru lagi verður ekki séð að í slíkri ráðstöfun fælist óheimilt framlag í skilningi 2. mgr. 20. gr. laganna enda ekki um að ræða gjöf eða annars konar örlætisgerning lífeyrissjóðs án tengsla við fjárfestingar hans heldur eðlilega framkvæmd fjárfestinga sjóðsins með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og eðlilegum viðskiptaháttum. Í þriðja lagi verður ekki séð að slík ráðstöfun gengi gegn réttindum sjóðfélaga eða fæli í sér skerðingu þeirra. Að þessu virtu verður ekki séð að lög nr. 129/1997 girði fyrir ráðstöfun sem þessa. 54. Ítrekað skal að lífeyrissjóðir njóta töluverðs svigrúms innan þess ramma sem lög nr. 129/1997 setja starfsemi þeirra til mats á því hvernig þeim markmiðum sem að er stefnt með lögunum verði best náð hverju sinni. Í lögunum, reglum settum samkvæmt þeim, samþykktum Gildis lífeyrissjóðs og reglum og stefnum sjóðsins er sem fyrr segir ekki tekin bein afstaða til þess hvaða skilmálar skuli nánar tiltekið gilda um lánveitingar sjóðsins til sjóðfélaga. Þessir skilmálar ráðast því af ákvörðunum sem stjórn sjóðsins tekur hverju sinni á grundvelli þess svigrúms sem henni er veitt til þess samkvæmt framangreindum lögum og reglum. Innan þess svigrúms rúmast m.a. ákvarðanir sem teknar eru með stoð í almennum reglum samninga- og kröfuréttarins og miða að því að taka réttmætt tillit til hagsmuna skuldara og gæta heiðarleika og sanngirni í viðskiptum. Það á einnig við um ákvarðanir sem teknar eru með heildarhagsmuni sjóðsins til lengri tíma litið að leiðarljósi. Benda má á í því sambandi að ekki er unnt að útiloka að ósanngjarnir viðskiptahættir geti til lengri tíma litið haft neikvæð áhrif á orðspor og samkeppnishæfni lífeyrissjóðs. 55. Þess má að lokum geta að lífeyrissjóðir hafa áður gefið eftir af kröfum með stoð í framangreindum lagareglum. Má hér t.d. nefna hina svonefndu 110% leið sem farin var eftir efnahagshrunið 2008 og fólst í niðurfærslu veðkrafna sem voru umfram 110% af verðmæti fasteignar, að gefnum ákveðnum skilyrðum. Úrræðinu var komið á fót með samkomulagi stjórnvalda, Íbúðalánasjóðs, Samtaka fjármálafyrirtækja, Landssamtök lífeyrissjóða og Dróma hf. 15. janúar 2011, en ekki voru sett sérstök lög til að heimila lífeyrissjóðum að bjóða upp á leiðina og var hún talist rúmast innan laga nr. 129/1997. IV. Niðurstöður 56. Í áliti þessu er leitað svara við því hvort lífeyrissjóðurinn Gildi hafi heimild að lögum til þess að gefa eftir kröfur á hendur lántakendum með því að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara. Með vísan til framangreindra röksemda eru niðurstöður álitsins samandregnar: Það leiðir ekki af lögum nr. 129/1997 eða öðrum lögum að lífeyrissjóðnum Gildi sé óheimilt að fella niður vexti og verðbætur þeirra lántakenda sem búsettir eru í Grindavík, í takmarkaðan tíma, vegna þess ástands sem skapast hefur í bænum af völdum náttúruhamfara. Niðurfelling vaxta og verðbóta við þær aðstæður sem nú eru í Grindavík eiga stoð í heimildum til rekstrar sjóðsins skv. lögum nr. 129/1997 og meginreglum samninga- og kröfuréttar, eftir atvikum eins og þær hafa verið lögfestar þ.m.t. í lögum nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Niðurfellingin myndi ekki fela í sér inngrip í eignarréttindi sjóðfélaga Gildis lífeyrissjóðs sem væri andstætt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. --- 57. Endanleg niðurstaða um lögfræðileg álitaefni er í höndum dómstóla. Umfjöllun í þessu áliti er ætlað að vera samantekt á þeim lagareglum og sjónarmiðum sem þýðingu hafa við úrlausn málsins. Ekki um að ræða tæmandi upptalningu á dómum, umfjöllun fræðimanna eða öðrum atriðum sem varða álitaefnið. Verði eftir því óskað getur MAGNA fjallað ítarlegar um einstök atriði. Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélags GrindavíkurRagnar Þór Ingólfsson formaður VREinar Hannes Harðarson formaður Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur [1] https://www.gildi.is/frettir/upplysingar-fyrir-lantakendur-i-grindavik/. [2] https://www.gildi.is/frettir/almennar-nidurfellingar-vaxta-og-verdbota-oheimilar/. [3] https://gildi.overcastcdn.com/documents/%C3%81lit_LEX_-_almenn_ni%C3%B0urfelling_%C3%A1_kr%C3%B6fum.pdf [4] Ragnhildur Helgadóttir: ,,Stjórnskipunin og meðferð á fé lífeyrissjóða’’ Stjórnmál og stjórnsýsla (2013, 1. tbl.), bls. 193. [5] Alþingistíðindi, 1997-1998, þskj. 294 - 249. mál, um 20. gr. [6] https://www.gildi.is/lan/lanareglur/. [7] Alþingistíðindi, 1997-1998, þskj. 294 - 249. mál, fjárreiður og eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. [8] https://gildi.overcastcdn.com/documents/Fj%C3%A1rfestingarstefna_2024.pdf, bls. 3. [9] Stefán A. Svensson: ,,Úrræði lánveitanda við vanefndir lántaka I'' ,Tímarit Lögréttu (2010, 1. tbl.) bls. 15. [10] Viðar Már Matthíasson: ,,Trúnaðarskylda við gerð, framkvæmd og slit samninga‘‘, Úlfljótur (2000, 2. tbl.), bls. 193. [11] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 93. [12] Viðar Már Matthíasson: ,,Trúnaðarskylda við gerð, framkvæmd og slit samninga‘‘, Úlfljótur (2000, 2. tbl.), bls. 194. [13] Lögin gilda m.a. um fasteignalán lífeyrissjóða, sbr. gildissviðsákvæði 2. gr. laganna. Þar kemur fram að gildissvið laganna sé afmarkað við samninga um fasteignalán sem lánveitandi eða lánamiðlari kynnir eða gerir í atvinnuskyni við neytendur. Lánveitandi er samkvæmt 18. tl. 1. mgr. 4. gr. laganna lögaðili sem veitir eða lofar að veita fasteignalán í atvinnuskyni. [14] Alþingistíðindi, 2015-2016, þskj. 519 - 383. mál, um 5. gr. [15]Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur II, bls. 182. [16] Viðar Már Matthíasson: „Álitsgerð um reglur sem gera ráð fyrir að tilgreind atvik geti haft áhrif á skyldu til að efna samninga“, bls. 4. Sjá: https://www.mbl.is/media/78/11378.pdf. [17] Viðar Már Matthíasson: ,,Tímabundið brottfall efndaskyldu vegna hindrana er leiða af COVID-19 sjúkdómnum‘‘ Úlfljótur (2021, 1. tbl.), bls. 127-128. [18] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur II, bls. 165. [19] Ása Ólafsdóttir: Ógildingarreglur samningaréttar, bls. 226. [20] Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson: Kröfuréttur I, bls. 167. [21] Ása Ólafsdóttir: Ógildingarreglur samningaréttar, bls. 226. [22] Hér má einnig nefna sjónarmið um að samningur geti talist „óvirkur“ vegna breytinga á aðstæðum, sem höfðu þýðingu við ákvörðun loforðsgjafa um að skuldbinda sig. Slík loforð verða hvorki efnd samkvæmt aðalefni né með greiðslu bóta. Óvirkt loforð er þannig ekki ógilt en hefur samt ekki áhrif samkvæmt efni sínu, a.m.k. ekki full áhrif. (sjá Kröfuréttur II, bls 40). [23] Sjá t.d. dóm Hæstaréttar 11. apríl 2017 í málin nr. 495/2016. [24] Þá má einnig nefna dóm Hæstaréttar 28. júní 2023 í máli nr. 4/2023 þar sem deilt var um afpöntun utanlandsferðar degi fyrir brottför vegna útbreiðslu Covid-19 faraldursins. Í rökstuðningi Hæstaréttar voru lagaákvæði m.a. túlkuð með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem almennt gilda um force majeure. [25] Ársskýrsla Gildis lífeyrissjóðs 2022. https://gildi.overcastcdn.com/documents/%C3%81rssk%C3%BDrsla_Gildis_2022_-_vefur.pdf [26] Viðar Már Matthíasson: ,,Tímabundið brottfall efndaskyldu vegna hindrana er leiða af COVID-19 sjúkdómnum‘‘ Úlfljótur (2021, 1. tbl.), bls. 127.
Skoðun Framtíðarsýn skóla og frístundastarfs í Lauganes- og Langholtshverfi Árelía Eydís Guðmundsdóttir skrifar
Skoðun Aðgengi og lífsgæði eldri borgara í stafrænni framtíð: Hvað getum við gert betur? Hildur María Friðriksdóttir skrifar
Skoðun Valkyrjustjórnin skyldi íslensk flugfélög til gæludýraflutninga í farþegaflugvélum Árni Stefán Árnason skrifar
Skoðun Krísan sem heimurinn hundsar: kynbundið ofbeldi í átökum Birta B. Kjerúlf ,Kjartan Ragnarsson skrifar