Skoðun

Um upp­lifun í úti­búi og far­sæla lausn

Helgi Teitur Helgason skrifar

Mér er ljúft og skylt að svara grein Magna R. Magnússonar sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn þar sem hann segir frá ferð sinni í útibú Landsbankans í Borgartúni.

Eins og Magni rekur í greininni ætlaði hann að nota reiðufé til að greiða reikning sem honum hafði borist. Þar sem hann var við komuna í útibúið ekki skráður sem viðskiptavinur bankans og því ekki með reikning hjá okkur, var ekki hægt að gera það umsvifalaust. Ástæðan er sú að þegar fólk vill nota reiðufé í viðskiptum sínum við bankann, t.d. til að greiða reikninga, þarf það að vera með reikning hjá bankanum. Þetta er einn af mörgum liðum í vörnum bankans gegn peningaþvætti. Okkur ber skylda samkvæmt lögum til að búa yfir upplýsingum um uppruna þeirra fjármuna sem bankinn tekur við. Okkur ber líka skylda til að hafa eftirlit með viðskiptunum og eina leiðin til þess er að reiðufé sé lagt inn á reikning áður en það er notað í frekari viðskiptum.

Til að stofna reikning hjá bankanum þarf að fylla út áreiðanleikakönnun og er hægt að gera það í Landsbankaappinu eða með því að koma í útibú. Yfirleitt tekur bara um eina mínútu að fylla út þessa könnun, stofna reikning og þar með koma í viðskipti við bankann. Þótt Magni hafi tekið peningana út úr hraðbanka hjá okkur, líkt og hann segir frá í greininni, þá komu peningarnir ekki af reikningi hjá okkur. Sú skýring dugar heldur ekki til að uppfylla ákvæði laganna.

Eins og fram kemur í greininni bauðst Magni þá til að greiða reikninginn með kreditkorti sem var gefið út af öðrum en Landsbankanum. Það er hvorki hægt að gera í hraðbanka né hjá gjaldkera og er ástæðan sú að tiltekin þjónusta er eingöngu í boði fyrir viðskiptavini Landsbankans, og er það einn af kostum þess að vera í viðskiptum við bankann. Þetta á við í mjög fáum tilvikum - og við minnum aftur á að það tekur bara eina mínútu að gerast viðskiptavinur.

Við erum ánægð með að Magni og gjaldkerinn okkar fundu lausn á málinu, þ.e. með því að hann fyllti út áreiðanleikakönnun, opnaði reikning hjá okkur og gat þar með greitt reikninginn með reiðufé. Við bjóðum Magna og alla aðra hjartanlega velkomna í Landsbankann – hvort sem þeir koma í eitt af 35 útibúum og afgreiðslum bankans eða vilja leysa málin í Landsbankaappinu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs Landsbankans.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×