Sunnudagar eru gjarnan miklir sjónvarpsdagar og luma strákarnir á ýmsum góðum ráðum fyrir áhorf kvöldsins.
Bjarki Már Elísson, hornamaður
„Ég kláraði nýjustu seríuna af Venjulegt fólk á dögunum. Þeir eru að mínu mati einir skemmtilegustu þættir í sögu íslensks sjónvarps eða allavega frá því að ég byrjaði að horfa á sjónvarp um 1994.
Við frúin höfum alltaf klárað seríurnar um leið og þær koma út og oftast á einu kvöldi. Við erum líka byrjuð á þáttunum Kennarastofan og lofa þeir mjög góðu en þar fara tveir af mínum uppáhalds íslensku leikurum með aðalhlutverk, Sverrir Þór og Katla Margrét. Þar sem ég er ekki heima þessa dagana eru þeir á hold.
Annars er ég mjög hrifinn af því að horfa á eitthvað sem ég þarf ekki að einbeita mér mikið að eins og How I met your mother, Family guy eða Friends. Þessa þætti horfi ég á aftur og aftur og þá helst áður en ég fer að sofa.“
Stiven Tobar Valencia, hornamaður:
„Ég er búinn að vera að hámhorfa á þættina Snowfall en þeir eru geðveikt góðir. Svo er maður búinn að vera að horfa á gamlar kvikmyndir og stendur myndin Don't Be a Menace to South Central While Drinking Your Juice in the Hood upp úr. Það er reyndar lengsti titill sem ég veit um.
Love Island var að byrja aftur og ég er byrjaður á fyrsta þættinum. Svo er maður náttúrulega bara að horfa á myndbönd af leikjum og svona, ég er líka búinn að vera dálítið mikið á Youtube og horfi á það sem kemur upp þar.“
Elliði Snær Viðarsson, línumaður
„Ég er búinn að vera að horfa á þættina Fool me once.
Var byrjaður á því fyrir mót og fannst þeir geggjaðir, þannig að ég fór strax að leita af svipuðum þáttum og ég var rétt í þessu að klára Stay close, sem ég mæli klárlega með. Þessar seríur eru báðar á Netflix.“
Viktor Gísli, markvörður
„Ég var að klára seinustu seríuna af The Crown á Netflix. Svo er ég líka að horfa á The Bear, það er helvíti gott stöff.
Ég er líka búinn að vera í Marvel mynda maraþoni með kærustunni minni en það er í pásu á meðan á mótið er í gangi.“