Nokkuð umfangsmikil mótmæli fóru fram í Bashkortostan í gær, sem er sjaldgæft í Rússlandi nú til dags, en þá var verið að mótmæla því að Fail Alsynov hafði verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna mótmæla sem hann kom að því að skipuleggja árið 2020 gegn námuvinnslu á stað sem heimamenn telja heilagan.
Alsynov er einnig sakaður um að tilheyra Bashkort-hreyfingunni, samtökum sem hafa verið skilgreind sem öfgasamtök og bönnuð í Rússlandi. Lögum um öfgasamtök hefur verið ítrekað verið beitt gegn aðgerðasinnum, sjálfstæðum fjölmiðlum og andstæðingum stjórnvalda í Rússlandi á undanförnum árum.
Bashkortostan er í Úralfjöllum og þar búa um 4,1 milljón manna af hinum ýmsu þjóðarbrotum. Margir íbúa eru komnir af frumbyggjum svæðiðsins.
Samkvæmt frétt Moscow Times mættu rúmlega tíu þúsund manns á mótmæli við dómshúsið í bænum Baymak í Bashkortostan í gærmorgun og kröfðust þess að Alsynov yrði sleppt úr haldi. Lögregluþjónar brugðust við mótmælunum af mikilli hörku og var kylfum og táragasi meðal annars beitt.
Radiy Khabirov, áðurnefndur ríkisstjóri, sagði í morgun að hann myndi ekki sætta sig við öfgar og að fólk reyndi að grafa undan stöðugleika.
„Hópur fólks, sumir sem búa erlendis og eru í raun svikarar, eru að kalla eftir aðskilnaði Bashkortostan frá Rússlandi. Þeir eru að kalla eftir skæruhernaðir,“ hefur MT eftir Khabirov.
Hann sagðist einnig ætla að sýna Alsynov og samstarfsmenn hans í réttu ljósi. Þeir væru ekki umhverfissinnar og föðurlandsvinir, eins og þeir máluðu sjálfa sig sem, heldur allt aðrir menn.
Khabirov tilkynnti Alsynov upprunalega til yfirvalda sem leiddi til þess að hann var handtekinn og dæmdur.
Segir Bashkir-fólkið reitt
Einn umræddra „svikara“ er Ruslan Gabbasov, sem stofnaði Bashkort-hreyfinguna með Alsynov, en hann býr nú í Litháen. Hann sagði í samtali við blaðamann Reuters að Bashkir-fólkið, sem væru um þriðjungur íbúa lýðveldisins, væri reitt yfir aðgerðum ríkisstjórnar Vladimírs Pútín, forseta Rússlands.
Þær aðgerðir hefðu grafið undan tungumáli þeirra og menningu. Þá hefði námugröftur valdið miklum skaða á umhverfi lýðveldisins og fjölmargir menn hefðu verið kvaddir í rússneska herinn.
Rannsóknir hafa sýnt að menn af frumbyggjaættum hafa verið kvaddir í herinn í hlutfallslega mun meiri fjölda en aðrir í Rússlandi.
„Samanborið við Rússa, senda þeir mun fleiri af okkur til stríðs og þeir deyja frekar,“ sagði hann. Hann sagði Bashkir-fólkið vildi ekki vera hluti af Rússlandi lengur, þar sem þau myndu þurrkast út á tiltölulega stuttum tíma, vegna aðgerða yfirvalda í Moskvu.