Félag pípulagningameistara sendi tæplega fimmtíu pípara í fyrradag til Grindavíkur til að koma hita á húsin þar og í gær voru þrjátíu pípara til viðbótar sendir.
Hús Klöru Bjarnadóttur, Grindvíkings, var eitt húsanna sem pípararnir yfirfóru en hún greindi frá því á Facebook að þeir hefðu ekki bara sinnt lögnum heldur líka blómum fjölskyldunnar.
„Hrós dagsins fá allir pípulagningamenn sem eru að störfum inní Grindavík. Við fengum símtal frá pípara þar sem hann nefndi allt sem var gert heima... þeir yfirfóru ofnakerfið, lokuðu fyrir og tóku þrýstinginn af neysluvatninu og settu svo frostlög í klósettið. Ójá, svo vökvuðu þeir öll blómin okkar. Hugulsemin er einstök,“ skrifar hún í færslunni.
Vísir hafði samband við Klöru til að forvitnast frekar út í þennan skemmtilega gjörning.
Mikil gleði í hjartað
Eins og margir aðrir Grindvíkingar fór Klara með lyklana að húsi sínu í Tollhúsið í fyrradag til að pípararnir kæmust inn. Þau hjónin fengu síðan afar skemmtilegt símtal í gær.
„Svo var hringt í manninn minn daginn eftir en við vitum ekkert hvaða píparar þetta voru. Þeir þurftu að spyrja manninn minn út í eitthvað og létu hann vita hvað þeir væru búnir að gera og svo enduðu þeir á Svo vökvuðum við blómin fyrir ykkur, vildum bara láta ykkur vita,“ segir Klara í samtali við Vísi.
Var þetta ekki gaman að heyra?
„Þetta var svo fallega gert og það kom svo mikil gleði í hjartað eftir allt þetta sem búið er að ganga á. Þá fannst mér líka nauðsynlegt að allir myndu vita af þessu hversu mikil góðmennska er þarna úti,“ segir Klara.
Fengu hjálp frá dásamlegu fólki
Líkt og aðrir Grindvíkingar hefur fjölskylda Klöru þurft að finna sér nýtt heimili eftir að þau yfirgáfu Grindavík. Þau búa núna í Kópavogi eftir að
„Eftir að hafa verið á smá flækingi í fimm vikur þá fengum við húsnæði. Dásamlegt fólk sem við þekktum ekki neitt hafði samband við okkur, við megum leigja þarna eins lengi og við viljum þannig að það er mikið öryggi,“ segir Klara.