Skoðun

Van­traust eða af­sögn ráð­herra eina leiðin

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Það er auðvitað ekki í boði að stjórnmálaflokkur sem að vill láta taka sig alvarlega og talar að minnsta kosti í stefnu sinni fyrir atvinnufrelsi og eignarrétti, geti stutt eða treyst ráðherra sem blygðunarlaust brýtur gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti og atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila. Lögbrot sem að minnsta kosti daðrar einnig við brot á lögum um ráðherraábyrgð og getur skapað ríkissjóði háa bótakröfu.

Stjórnmálaflokk sem það gerir, er tæplega hægt að taka alvarlega. Og skiptir þá engu, hversu mörg og stór verkefni séu fyrir stafni.

Hér er þó í engu verið að gera lítið úr þeim stóru verkefnum, sem framundan eru næstu vikur og mánuði. En þau mál er vel hægt að leysa, alveg óháð því hver situr í stóli matvælaráðherra eða hvað forsætisráðherra þjóðarinnar heitir.

Hótanir flokks hins brotlega ráðherra, Vinstri grænna um stjórnarslit verði vantraust á matvælaráðherra samþykkt, en til þess þarf atkvæði stjórnarþingmanna, sýna okkur hinum það fyrst og fremst að í huga þingmanna og eflaust fleiri flokksmanna Vinstri grænna er persóna hæstvirts matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur og pólitísk valdníðsla þess ráðherra, æðri stjórnarskrá landsins.

Þingmenn hinna stjórnarflokkanna, skulu einnig hafa það í huga, að greiði þeir atkvæði gegn vantrausti á matvælaráðherra, komi til slíkrar atkvæðagreiðslu á Alþingi, eru þeir einnig að setja Svandísi Svavarsdóttur á sama stall gagnvart stjórnarskránni og hennar eigin flokkur gerir. Það er óumdeilt, óháð því hversu menn segjast andvígir valdníðslu ráðherrans, þá verða orð þeirra ómerk og í raun lítilsvirðing við þjóðina ef þeim fylgja engar aðrar gjörðir en að tryggja með atkvæði sínu hinum brotlega ráðherra áframhaldandi setu í ríkisstjórn.

Komi til þess að vantraust verði samþykkt og Vinstri grænir standi við hótanir sínar, er þingrof strax auðvitað gersamlega út úr myndinni. Enda ekki bæði hægt að tala um stór úrlausnarefni sem leysa þurfi úr á næstu vikum og mánuðum og að rjúfa þing strax og boða til kosninga.

Við þær aðstæður væri auðvitað eðlilegast að núverandi stjórnarflokkar, utan Vinstri grænna, reyndu að mynda nýjan meirihluta í þinginu eða stofna til minnihlutastjórnar, sem varin yrði vantrausti, um þau verkefni sem nauðsynlegt er að leysa úr áður en boðað yrði til kosninga.

Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×