Skoðun

Fleiri bana­slys í boði Vega­gerðarinnar?

Skúli Gunnar Sigfússon skrifar

Þegar janúar er rétt hálfnaður hafa fimm manns látist í bílslysum á þjóðvegum landsins. Slysið við Skaftafell hinn 12. janúar vakti sérstaka athygli mína, enda keyri ég nær vikulega þessa leið austur í Suðursveit. Í slysinu létu tvær manneskjur lífið og sex aðrir slösuðust. Aðkoma á slysstað var með því ljótara sem þaulreyndir viðbragðsaðilar hafa séð.

Nokkrum dögum fyrir banaslysið við Skaftafell var ég á leið til Reykjavíkur um kl. 8 að morgni á Landcruiser á nýjum vetrardekkjum, vel negldum. Vegurinn var marauður að sjá og hitastigið um 3-4 gráður í plús. Engin hálka var þessa ca. 70 kílómetra sem ég keyrði frá Suðursveit að Freysnesi. Þegar ég var kominn rúman kílómetra vestur fyrir Freysnes og var að koma að Skaftafellsá, byrjaði bíllinn skyndilega að skrika og munaði minnstu að ég missti hann út af veginum. Ég er vanur bílstjóri, hef keyrt mikið á Íslandi í um 40 ár, er með öll meirapróf sem hægt er að taka auk þess að hafa verið atvinnubílstjóri í mörg ár. Þarna skall þó hurð nærri hælum og ég játa að mér brá verulega við þetta.

Ég gerði mér grein fyrir því að þarna var um að ræða svonefnda svarta ísingu, sem er stórhættuleg því að hún er svo til ósýnileg. Auðvitað er það þannig í dag að enginn má tjá sig um nokkur mál nema vera sérfræðingur, þannig að ég er meðvitaður um að fyrir mörgum gengur það ekki að samlokusali sé að tjá sig um svo sértæk mál sem hálkuvarnir á þjóðvegum eru – jafnvel þótt hann sé með meirapróf. Ég leitaði því til sérfræðinga sem hafa sinnt hálkuvörnum í áratugi á þjóðvegum landsins. Mér var tjáð að kaflinn í kringum Skaftafell sé stórhættulegur því að þar sé oft raki og lognpollur á kaflanum frá Freysnesi langleiðina að Skeiðarárbrú. Lognið er hættulegt því að vindurinn kemur í veg fyrir hálkumyndun af þessu tagi þar sem hann þurrkar upp malbikið.

Svarað af yfirlæti

Banaslysið við Skaftafellsá varð kl. 9:50 að morgni 12. janúar. Slysið varð svo til á nákvæmlega sama stað við Skaftafellsá og ég missti næstum stjórn á bílnum nokkrum dögum áður. Greinilegt er að hálkuvörnum var í bæði skiptin ekki sinnt af Vegagerðinni sem skyldi.

Annað banaslys varð á Grindavíkurvíkurvegi nákvæmlega viku fyrir þetta slys. Þar var einnig um að ræða hálkuslys þar sem hjón létu lífið. Nokkrir Grindvíkingar höfðu hringt í Vegagerðina þann morguninn og bent á að jafnvel þyrfti að loka veginum vegna flughálku. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar svaraði af yfirlæti í fjölmiðlum og fullyrti að hálkuvörnum hefði verið sinnt en þær virkuðu ekki þar sem verulega umferð þyrfti um veginn til að saltið virki. Þetta er einhver hrútskýring frá upplýsingafulltrúanum og færir hann engin frekari rök fyrir fullyrðingu sinni. Hið rétta er að vatn eða raka þarf til að hálkuvörn með salti virki, en ekki umferð. Þá minnist upplýsingafulltrúinn ekkert á það af hverju Vegagerðin notaði ekki sand ef salt virkar ekki vegna ónógrar umferðar um Grindavíkurveg. Það hefði að líkindum bjargað tveimur mannslífum.

Mér er ekki kunnugt um aðstæður í banaslysinu á Hvalfirði og hvort að ónógar hálkuvarnir hafi átt þátt í því.

Þekkingin hjá Vegagerðinni

Umferð erlendra ferðamanna er langmest um Suðurland. Margir þeirra eru alls óvanir að keyra í hálku og viðbrögð þeirra við hálkuástandi geta eðlilega verið kolröng. Hins vegar spannar reynsla Vegagerðarinnar í hálkuvörnum á Íslandi áratugi. Það er sjálfsögð krafa á Vegagerðina að starfsmenn hennar sjái fyrir aðstæður þar sem hálka getur myndast og verður stórhættuleg þar sem hún mun ekki sjást eða sjást illa. Þannig aðstæður voru morguninn sem banaslysið varð. Vitað er að sumir staðir eru hættulegri en aðrir, hvort sem það er við Skaftafell eða á vissum stöðum á Grindavíkurvegi. Vegagerðin á að hafa yfirburðaþekkingu á því og í samstarfi við Veðurstofu Íslands á hún að sjá þessar aðstæður fyrir og bregðast við í tæka tíð og bjarga mannslífum. Auðvitað er ekki er hægt að ætlast til að hálka sé aldrei á vegum landsins – til þess er vegakerfið of stórt og veðrið óútreiknanlegt – en hægt er gera þá kröfu að hálkuvörnum sé sinnt eins vel og hægt er á fjölförnustu leiðum, sérstaklega á stöðum þar sem vitað er að lúmsk hálka myndast reglulega.

Það er eðlilegt að krefja forstjóra Vegagerðarinnar svara um það hvernig hálkuvörnum var sinnt við Skaftafell að morgni 12. janúar síðastliðinn og hvernig þeim er sinnt almennt af Vegagerðinni. Ég hvet forstjórann til að sýna aðstandendum hinna látnu þá virðingu að svara sjálf fyrir málið en senda ekki upplýsingafulltrúa sinn eins og svo oft. Það þýðir þó lítið að koma með þá skýringu að ekki séu til peningar til að sinna hálkuvörnum, þar sem sóun á fé í Vegagerðinni blasir við öllum sem sjá vilja og gæti ég nefnt þar fjölmörg dæmi.

Fólk er að láta lífið að óþörfu á vegum landsins þar sem hálkuvörnum er ekki sinnt sem skyldi. Hálkuvarnir ættu því að vera í algjörum forgangi hjá ríkisstofnunni.

Höfundur er athafnamaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×