Þrátt fyrir nokkra yfirburði Bayern í leiknum voru það gestirnir í Werder Bremen sem voru fyrri til að koma boltanum í netið. Justin Njinmah skoraði þá fyrir gestina á 25. mínútu, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af eftir brot í aðdraganda marksins.
Ekki tókst liðunum að skora löglegt mark í fyrri hálfleik og staðan var því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Mitchell Weiser kom gestunum þó að lokum yfir með marki á 59. mínútu og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir heimamann tókst þeim ekki að jafna og niðurstaðan varð óvæntur 0-1 sigur Werder Bremen.
Bayern situr því enn í öðru sæti þýsku deildarinnar með 41 stig eftir 17 leiki, sjö stigum á eftir toppliði Bayer Leverkusen sem hefur þó leikið einum leik meira. Werder Bremen situr hins vegar í tólfta sæti með 20 stig.