Margir eru kunnugir leiðinni löngu gegn um húsgagnaverslunina, þar sem viðskiptavinur er teymdur í gegn um hinar ýmsu deildir. Örvum er varpað á öll gólf með skjávarpa og teyma viðskiptavini í rétta átt svo þeir villist ekki.
Nú hefur orðið smávægileg breyting á leiðakerfinu í IKEA, en opnuð hefur verið leið frá búsáhaldadeildinni að gjafavörudeildinni. Sú leið styttir ferðina í gegn um verslunina lítillega þannig að viðskiptavinir komast nú örlítið fyrr að afgreiðslukössunum.
Í samtali við Vísi segir Stefán Rúnar Dagsson framkvæmdastjóri IKEA að breytingin sé einungis tímabundin, og til þess gerð að eldvarnarreglum sé fylgt. Framkvæmdir séu nú í fullum gangi við verslunina en unnið hefur verið að því að reisa nýtt vöruhús. Vegna þeirra hafi þurft að loka neyðarútgangi og því þurft að opna nýjan í staðinn. Þess vegna hafi breytingin verið gerð.
Stefán segir að með nýja vöruhúsinu verði hægt að sameina tvo vörulagera sem þegar tilheyra fyrirtækinu og voru annars vegar staðsett í Suðurhrauni tíu og hins vegar í Kauptúni þrjú. Verslunin sjálf verði ekki stækkuð að þessu sinni. Framkvæmdir hófust í október 2022 og stefnt er að því að þær klárist seinni partinn á þessu ári.