Þessu kallar jórdanski prinsinn Ali bin Hussein eftir í opnu bréfi. Hann er fyrrverandi frambjóðandi til formanns FIFA og nú formaður knattspyrnusambands Jórdaníu og knattspyrnusambands Vestur-Asíu.
Í næsta mánuði, 21. mars, eiga Ísrael og Ísland að mætast í afar mikilvægum leik, í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla.
Skorar á KSÍ og önnur sambönd
Ákveðið hefur verið að leikurinn, sem átti að vera heimaleikur Ísraels, verði spilaður á Ferenc Puskás leikvanginum í Búdapest í Ungverjalandi. Þar spilaði Ísrael einnig heimaleiki sína í lok undankeppni EM, í nóvember síðastliðnum, eftir að stríðið braust út.
En Ali vill að gengið verði lengra og að Ísrael verði bannað að spila leikinn. Hann skorar á KSÍ og önnur aðildarsambönd FIFA að taka undir málstaðinn.
„Við köllum eftir því að FIFA, álfusamböndin og aðilar þeirra gangi til liðs við okkur í baráttunni gegn voðaverkunum,“ segir í opnu bréfi Ali sem The Sun vitnar til.
„Í því felst fordæming á því að saklausir borgarar séu drepnir… og að við sameinumst í að einangra ísraelska knattspyrnusambandið frá öllum fótbolta þar til að árásunum lýkur,“ segir þar einnig.
Euro 2024 could be plunged into chaos as Fifa and Uefa are urged to kick Israel out of football https://t.co/pv2kTr3FXx https://t.co/pv2kTr3FXx
— The Sun Football (@TheSunFootball) February 1, 2024
The Sun getur þess að ekki sé búist við því að FIFA eða UEFA bregðist við með því að banna Ísrael, líkt og gert var við Rússland eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.
Sigurvegarinn úr leik Íslands og Ísraels mætir sigurliðinu úr leik Bosníu og Úkraínu í úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu sem hefst í Þýskalandi 14. júní. Liðið sem kemst á mótið verður í E-riðli ásamt Belgíu, Slóvakíu og Rúmeníu, og byrjar á leik við Rúmeníu 17. júní.