Þetta kemur fram í tilkynningu. Um er að ræða sömu eigendur og reka Eiriksson brasserie á Laugavegi 77, gamla Landsbankahúsinu. Guðmundur Ragnarsson, betur þekktur sem Gummi í Laugaási, verður í aðalhlutverki í eldhúsinu í Grósku.
Útlit staðarins verður í sama stíl og á Laugaveginum, hannað af ítalska hönnunarfyrirtækinu Design group Italia.
Staðurinn verður hádegisstaður þar sem boðið verður upp á heitan mat á virkum dögum frá 11:30-14:00. Verður val á milli nokkurra rétta sem breytast reglulega. Einnig verður hægt að taka með sér salöt, samlokur og fleiri rétti úr kæli fyrir þá sem hafa minni tíma.
Þá segir í tilkynningunni að glæsilegur bar verði á staðnum þar sem hægt verði að fá sér drykki og létta rétti fram eftir degi. Þá verður hægt að bóka veislur kvöld sem helgar en allt að tvö hundruð manns komast í sæti og enn fleiri í standandi gleðskap.
Veitingastaðurinn verður í suðurenda Grósku þar sem rekin var mathöllin Vera í rúmt ár. Reksturinn gekk ekki vel og var Veru lokað sumarið 2023.