Í maí 2022 var skrifað undir viljayfirlýsingu þar sem kveðið var á um að Listaháskóli Íslands (LHÍ) myndi flytja í Tollhúsið og því þarf Kolaportið að leita annað.
Borgin hefur samþykkt að undirbúa markaðskönnun til að finna nýjan stað fyrir starfsemina og hún verður auglýst á næstu dögum. Tillögur starfshóps um almenningsmarkaðs í miðborginni munu síðan liggja fyrir í haust.
Hönnunarstofan m / studio_ framkvæmdi greiningu á húsnæðisþörfum og mögulegum staðsetningum markaðarins fyrir hönd borgarinnar en þar kemur meðal annars fram að styðjast þurfi við viðmið sem talin eru hafa hvað mest áhrif á velgengni almenningsmarkaða. Þau eru:
- Sýnilegt og eftirtektarvert húsnæði
- Nálægð við aðra þjónustu og á svæði sem fólk safnast nú þegar saman á
- Gott aðgengi fyrir fótgangandi og akandi, nálægð við almenningssamgöngur
- Góð aðkoma fyrir vöruflutninga og bílastæði í grennd
- Húsnæði henti vel undir starfsemina