Ljúdmíla Navalnaja birti myndband í dag þar sem hún greinir frá þessu. Hún krafðist þess að fá lík Navalní afhent svo hún geti grafið hann með sæmd. Svo virðist sem rússnesk yfirvöld óttist að grafreitur hans verði að eins konar altari andspyrnuhreyfingarinnar innan landsins því samkvæmt Ljúdmílu vilja þau þvinga hana til að grafa hann í kyrrþey.
— Yulia Navalnaya (@yulia_navalnaya) February 22, 2024
„Þeir eru að reyna að þvinga mig, þeir vilja ráða hvenær og hvernig sonur minn verður grafinn,“ segir hún í myndbandinu.
Kira Yarmysh, talsmaður Navalní, birti færslu á X, áður Twitter, þar sem hún greindi frá því að móðirin hafi farið til fanganýlendunnar þar sem sonur hennar dvaldi og undirritað dánarvottorð.
Vill að Rússar geti kvatt son sinn
Í ávarpinu segir Ljúdmíla að sér hafi verið hótað.
„Þeir litu í augu mín og sögðu að ef ég samþykkti ekki útför í kyrrþey myndu þeir gera eitthvað við lík sonar míns. Voropajev rannsóknarlögreglumaður sagði opinskátt við mig: „Tíminn er ekki með þér í liði, líkið er að rotna,“ segir Ljúdmíla.
Hún segir jafnframt að hún vilji að allir þeir sem harma fráfall sonar síns eigi tækifæri á að heimsækja grafreitinn. Alexeí Navalní er dáður meðal Rússa sem mótfallnir eru stjórn Vladimírs Pútíns á landinu.
„Þeir vilja fara með mig í útnára kirkjugarðsins að gröfinni og segja: „Hér hvílir sonur þinn.“ Ég samþykki það ekki. Ég vil að einnig þið - sem þykir vænt um Alexej og upplifið fráfall hans sem persónulegt áfall - fáið tækifæri til að kveðja hann,“ segir Ljúdmíla.