Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr ákvæðið aðeins að verðbólgu og ekki er minnst á neina vexti. Meginmarkmið viðsemjenda hefur verið að ná niður verðbólgu og vöxtum og að samningar skapi skilyrði svo að það gerist.
Allir innan breiðfylkingar ASÍ að VR og LÍV undanskildum hafa skrifað undir ákvæðið. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og LÍV, fundar með sínu baklandi um málið í dag.
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru engin önnur stór ágreiningsefni eftir í viðræðunum. Búið sé að semja um launalið og nú þegar forsenduákvæðið er komið sé lítið eftir.
Ragnar Þór vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa talað við hann í morgun og vísaði til fjölmiðlabanns. Hann staðfesti þó að hann ætlaði að funda með samninganefnd sinni í hádeginu og baklandi sínu í dag. Ríkissáttasemjari boðaði til fundar breiðfylkingar í Karphúsinu í morgun og stendur hann enn yfir.
Þegar kjaraviðræðum var slitið fyrr í þessum mánuði kom fram í tilkynningu frá breiðfylkingunni að ásteytingarsteinninn hafi verið forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta.
„Ásteytingarsteinninn er forsenduákvæði um þróun verðbólgu og vaxta. SA hafa hafnað með öllu að í fjögurra ára samningi verði forsenduákvæði til varnar launafólki, hafi markmið varðandi verðbólgu og vexti ekki náðst,“ sagði í yfirlýsingu og að launafólk eitt myndi bera ábyrgð ef að markmið samninga um lækkun verðbólgu og vaxta myndu ekki nást.
Seðlabankastjóri sagði eðlilegra að miða við verðbólgu
Samtök atvinnulífsins sögðust ekki geta gengið að forsenduákvæðum um þróun vaxta á samningstímanum þar sem það myndi vega að sjálfstæði Seðlabankans.
„Lögbundið hlutverk bankans er að halda verðbólgu við markmið og beita til þess stýrivaxtatækinu. Það er svo hlutverk aðila vinnumarkaðarins að skapa umhverfi sem stuðlar að þessu markmiði,“ sagði í yfirlýsingu frá SA á þeim tíma.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði nokkrum dögum síðar á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að aðilar vinnumarkaðarins gætu samið um hvað sem væri. Seðlabankinn skipti sér ekki af því enda ekki aðili að samningunum. Þá sagði hann að forsenduákvæði um þróun vaxta myndi ekki hafa nein áhrif á ákvarðanir bankans en tók þó fram að í forsenduákvæðum samninga væri eðlilegra að miða við þróun kaupmáttar og verðbólgu en vaxtastefnu bankans.