Árhólmasvæðið liggur við rætur Reykjadalsins. Í tilkynningu um samninginn er fullyrt að á svæðið sæki hundruð þúsunda manna á ári hverju.
Fyrsti áfangi uppbyggingarinnar mun felast í uppbyggingu náttúrubaða sem hafa fengið nafnið Reykjaböðin. Fram kemur að verkefnið sæe fullfjármagnað og framkvæmdir hafnar.
„Árhólmar henta einstaklega vel fyrir baðstarfsemi en mikill jarðhiti er á svæðinu ásamt góðu aðgengi að heitu vatni og hefur verið ánægjulegt að vinna með Veitum að góðum lausnum á því sviði. Náttúrfegurð er mikil á svæðinu og staðsetningin er líka frábær þar sem hún stutt frá Reykjavík og við upphaf Gullna hringsins ásamt góðu aðgengi fyrir gesti og heimafólk,“ segir í tilkynningunni.
„Upplifun gesta verður í fyrirrúmi og náttúran í nágrenninu þar sem hverir bubbla og reykur stígur upp úr jörðinni allt um kring. Náttúruleg efni verða í forgrunni við byggingu baðanna og markmið að skapa kósý stemningu fyrir gesti á öllum árstíðum. Baðlónið mun bjóða uppá fjölda nýjunga sem ekki hafa áður sést á Íslandi og verður gaman að kynna frekar þegar fram líða stundir.“

Reykjadalsfélagið er fyrir með starfsemi á Árhólmasvæðinu. Árið 2021 opnaði Reykjadalsskálinn sem þjónustar veitingar, verslun og salerni og sinnir upplýsingagjöf. Á svæðinu er einnig starfrækt afþreyingarstarfsemi, en nýverið opnaði ein lengsta sviflína í Evrópu.

Í tilkynningunni segir að um sé að ræða stórt skref í uppbyggingu Hveragerðisbæjar.
„Það hefur verið afar áhugavert að fylgjast með uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í Hveragerði á undanförnum árum. Við erum ánægð með þennan stóra samning sem verður mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna, atvinnulífið og samfélagið í bænum,“ er haft eftir Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur, formanni bæjarráðs Hveragerðisbæjar.