Stærstu félög Evrópu hafa unnið að hugmyndinni um ofurdeildina um hríð. Um er að ræða lokaða deild stærstu liða Evrópu og vonir standa til um umtalsvert meiri tekjur til þeirra félaga sem taka þátt en þau þéna í Meistaradeild Evrópu, sem heyrir undir Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA.
Mismikill áhugi er fyrir hugmyndinni í álfunni en ljóst er að slíkar hugmyndir myndu auka enn frekar á misskiptingu og yfirburðastöðu umræddra félaga gagnvart öðrum í Evrópu.
Forráðamenn dönsku deildarinnar virðast á meðal þeirra sem standa gegn slíkum hugmyndum og þá sérstaklega nafninu. Danir kærðu nafn evrópsku deildarinnar til Evrópusambandsins og samkvæmt úrskurði Hugverkastofu Evrópusambandsins má fyrirtækið sem stofnað var í kringum fyrirhugaða ofudeild ekki skrá vörumerkið þar sem Danir eiga þegar einkarétt að ofurdeildinni.

Við erum mjög ánægður að Hugverkastofa Evrópusambandsins hafi fallist á það að nafnið Ofurdeildin (e. The Super League) innan Evrópu muni brjóta í bága við verðmæti sem dönsku félögin hafa fjárfest í 3F Superliga. Við höfum alltaf staðið gegn vilja stóru félaganna til að stofna nýja evrópska deild, er haft eftir Claus Thomsen, stjórnarformanni dönsku ofurdeildarinnar, í yfirlýsingu frá deildinni varðandi dóminn.
Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni með því að smella á hlekkinn að neðan.