Skoðun

Ætlar þú að gefa bestu fermingar­gjöfina?

Hildur Mist Friðjónsdóttir skrifar

Það hefur varla farið framhjá neinum síðustu daga að vor er í lofti. Vorið markar nýtt upphaf með lengri og bjartari dögum. Umhverfið lifnar við eftir langan vetur, páskarnir eru handan við hornið og fermingar ársins eru þegar hafnar.

Allt í kringum okkur sjáum við auglýsingar um fermingargjafir ársins. Verslanir keppast við að markaðssetja ferminguna og markaðsöflin hafa átt töluverðan þátt í því að fermingargjafir og fermingarveislur hafa orðið íburðarmeiri með árunum.

Ferming er stór áfangi í lífi hvers einstaklings og markar nýtt upphaf, alveg eins og vorið. Fermingarbörnin ganga í fullorðinna manna tölu og taka fyrstu skrefin í átt að framtíðinni.

Foreldrar, fjölskylda, vinir og vandamenn óska einskis heitar en að þessara fermingarbarna bíði björt framtíð.

Burtséð frá því hvað er í pakkanum sem við gefum fermingarbörnunum á sjálfan fermingardaginn þá er gott að staldra við og hugsa hvernig framtíð við erum að skapa fyrir þessa kynslóð og þær sem á eftir koma. Eru óskir um bjarta framtíð bara innantóm orð rituð á skjannahvít fermingarkort eða er eitthvað meira á bakvið þau? Felst ekki töluverð ábyrgð í þessum orðum?

Við lifum á tímum hamfarahlýnunar og ástandið er háalvarlegt. Það er í okkar höndum að búa komandi kynslóðum í haginn og tryggja þeim örugga framtíð. Á næstu árum og áratugum munum við þurfa að takast á við umfangsmestu áskoranir mannkyns, loftslagsbreytingar. Um heim allan munu öfgar í veðurfari aukast og hafa bein áhrif á lífsgæði fjölmargra. Ákvarðanir sem við tökum í dag og á næstu árum munu hafa mikið að segja um hversu alvarleg áhrifin verða.

Gefum börnunum okkar bestu gjöfina með því að breyta hugarfari og venjum í okkar eigin lífi en ekki síður í störfum okkar, þar sem ákvarðanir þar hafa oft enn meira vægi fyrir umhverfið. Göngum um náttúruna og auðlindir jarðar af virðingu í þágu bjartari framtíðar. Það er fermingargjöf ársins 2024.

Höfundur er sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×