„Þetta er að ganga niður. Ég fór út í morgun að moka og finn núna að þetta er orðið rólegra. Allavega hérna á Ísafirði,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri á Ísafirði, en fréttamaður náði tali af henni í morgun á leið í vinnu.
„Ég er að labba í vinnuna. Það er búið að moka vegi í fyrsta forgangi en það eru allar litlar götur enn ófærar þannig það er alveg eins gott að vera á tveimur jafnfljótum,“ segir Arna Lára. Það séu öll moksturstæki úti og að færðin eigi því að lagast eftir því sem líður á daginn.
Seinnipartinn í gær var rýmt atvinnuhúsnæði á Ísafirði og sett á óvissustig vegna snjóflóðahættu. Arna Lára segir að þar sé ekki búið að moka en að það búi enginn þar.
„Við erum dálítið góð með þetta,“ segir Arna Lára spurð um líðan í þessum mikla snjó. „Það vantaði aðeins upp á snjóinn. Við erum með skíðaviku í næstu viku,“ segir hún en um páska fjölgar iðulega í bænum af bæði skíðafólki og þeim sem heimsækja bæinn vegna hátíðarinnar Aldrei fór ég suður.
„Við fengum alveg yfirdrifið af snjó þannig það verður hægt að halda góða skíðaviku í næstu viku. Það ættu allir að komast á skíði. Þetta var þannig kærkomin snjósending en smá mikil ófærð sem fylgdi henni.“
Þannig það verður ljúft að koma í næstu viku á Aldrei fór ég suður?
„Já, það er hægt að skíða á daginn og fara á tónleika á kvöldin. Alveg eins og við viljum hafa þetta.“