FIFA gaf grænt ljós á skiptin og Cole spilaði sinn fyrsta leik með bandarísku landsliði þegar hann hjálpaði nítján ára landsliðinu að vinna England um helgina.
Hinn átján ára gamli Cole skoraði tvö mörk í 3-2 sigri en leikurinn fór fram í Rabat í Marokkó.
Í fyrra markinu fékk hann stungusendingu inn fyrir vörnina og kláraði færið af mikilli yfirvegun. Í seinna markinu þá keyrði hann á bakvörðinn og fíflaði hann áður en hann afgreiddi boltann glæsilega í markið rétt utan markteigsins.
Cole skoraði tvö mörk í sjö leikjum fyrir íslenska sautján ára landsliðið og er þegar búinn að jafna það í fyrsta leik með bandarísku landsliði.
Cole spilaði með FH og Breiðabliki áður en hann fór út en hann spilar nú með unglingaliði Borussia Dortmund. Hann á bandarískan föður en móðir hans er fyrrum landsliðskona Íslands, Rakel Ögmundsdóttir.
Rakel lék tíu A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim sjö mörk. Hún skoraði einnig þrjú mörk í þremur leikjum fyrir 21 árs landsliðið.
Cole hefur spilað með nítján ára liði Dortmund í vetur og er með sjö stoðsendingar og tvö mörk í sextán leikjum í þýsku deildinni.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin hjá Cole.