Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í dag fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum í málinu. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt kröfuna og verða þremenningarnir - Davíð Viðarsson eigandi Pho Vietnam, kærasta hans og bróðir - í gæsluvarðhaldi til 9. apríl. Davíð situr áfram í einangrun.
Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild segir í samtali við fréttastofu að búið sé að úrskurða fólkið í áframhaldandi gæsluvarðhald.
Þá staðfestir hún að fjórir brotaþolanna í málinu, sem í heildina eru um fjörutíu talsins, hafi verið yfirheyrðir fyrir dómi eins og greint var frá á RÚV fyrr í dag.
„Þau gætu farið eða eitthvað slíkt. Þetta snýst um það að tryggja kannski eitthvað. Þau eru ekki í farbanni, enda brotaþolar. Þetta er bara til að tryggja að við höfum eitthvað, ef eitthvað breytist,“ segir Elín Agnes.
Ekki hefur fjölgað í hópi sakborninga að sögn Elínar Agnesar en þeir eru í heildina níu talsins. Sex voru upprunalega úrskurðaðir í gæsluvarðhald en þremur hefur verið sleppt.
„Rannsóknin gengur nokkuð vel miðað við allt og allt. Þetta er mikið magn af gögnum til að fara yfir og það tekur tíma,“ segir Elín Agnes.