Nú þegar um níu vikur eru til forsetakosninga er verið að safna meðmælendum með framboði um sextíu einstaklinga. Lang flestir þeirra munu heltast úr lestinni áður en framboðsfrestur rennur út hinn 26. apríl. Aðeins ein könnun hefur verið birt um fylgi frambjóðenda, sem Prósent birti í síðustu viku.
Þar nýtur Baldur Þórhallsson mest fylgis eða 37 prósenta og Halla Tómasdóttir er næst honum með 15 prósent. Aðrir mælast með eins stafs tölu en 34 prósent eru óákveðnir. Ef aðeins þeir sem tóku afstöðu eru skoðaðir nýtur Baldur fylgis 56 prósenta og Halla 23 prósenta.

En frá því þessi könnun var gerð hefur Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar tilkynnt um framboð og fastlega er búist við að Jón Gnarr gerði það með myndbandi klukkan átta í kvöld. Þá bíða margir eftir því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra geri upp hug sinn en samkvæmt heimildum fréttastofu mun hún tilkynna af eða á um framboð í þessari viku. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri liggur einnig undir felldi.
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur sem þekkir til kosningabaráttu allra forsetaframboða segir þessa mögulegu frambjóðendur geta breytt stöðunni. Katrínu hafi lengi notið mikils persónufylgis og verið vinsælasti stjórnmálamaður landsins þótt Kristrún Frostadóttir hafi skotist upp fyrir hana undanfarið.

„Stjórnin sem hún stýrir er líka mjög óvinsæl og flokkurinn hennar hefur farið mjög illa út úr skoðanakönnunum. Þannig að við vitum ekki hvort þetta breytta pólitíska landslag hefði einhver áhrif á hugsanlegt gengi hennar í forsetakosningum,“ segir Ólafur.
Þótt Katrín byði sig fram þyrfti það ekki að þýða endalok ríkisstjórnarinnar og nokkrar fléttur sem þar kæmu til greina. Mögulegt framboð forsætisráðherrans hefur þó orðið til þess að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að boða til fundar í þingflokknum um málið á morgun.
„Þetta getur orðið mjög spennandi kosningabarátta. Í kosningabaráttunni 2016 sáum við verulegar fylgisbreytingar meðan á kosningabaráttunni stóð. Það gæti vel endurtekið sig.“
Þá hafi þjóðin oft komið á óvart þegar komi að forsetakosningum.
„Við höfum mörg dæmi um að þjóðin er ólíkindatól þegar forsetakosningar eru annars vegar. Það er mjög erfitt að spá fyrir í hvaða skapi hún er þegar gengið er til þess að kjósa forseta,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.