Hópur 57 þjóðríkja og bæði ríkis- og einkarekinna fyrirtækja standa fyrir um áttatíu prósentum losunar vegna jarðefnaeldsneytis og steinsteypuframleiðslu í heiminum á tímabilinu 2016 til 2022 samkvæmt greiningu hugveitunnar InfluenceMap sem Reuters-fréttastofan segir frá. Hún byggir á tölum sem fyrirtækin gefa sjálf upp um losun sína auk opinberra gagna.
Stórtækustu losendurnir eru sádiarabíska ríkisolíufélagið Aramco, rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom og indverska ríkiskolafélagið Coal India.
Greiningin leiddi ennfremur í ljós að flest fyrirtækjanna hefðu bætt í jarðefnaeldsneytisframleiðslu sína frá árinu 2015 þegar nær öll ríki heims skrifuðu undir Parísarsamkomulagið sem á að koma böndum á loftslagsbreytingar af völdum manna.
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum hefur enda haldið áfram að aukast. Útblástur vegna orku hefur aldrei verið meiri en í fyrra samkvæmt tölum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.