Bronny, sem er enn gjaldgengur í háskólaboltanum í Bandaríkjunum ætlar um leið að halda þeim möguleika enn opnum en fróðlegt veðrur að sjá hvernig piltinum mun vegna í framhaldinu.
Athyglisvert í meira lagi, ekki bara sökum þess hver faðir hans er og sú staðreynd að sá er enn spilandi í NBA deildinni með liði Los Angeles Lakers, heldur einnig sökum þeirrar staðreyndar að fyrir innan við ári síðan fór Bronny í hjartastopp á æfingu með liði háskólans í Suður-Kaliforníu.
Bronny var lagður inn á sjúkrahús og dvaldi á gjörgæsludeild í þrjá daga en var seinna útskrifaður og gefið grænt ljós, fjórum mánuðum síðar, á að halda áfram með sinn leikmannaferil.
„Þetta ár hefur einkennst af hæðum og lægðum en bætt mig sem manneskju, nemanda og íþróttamann,“ segir Bronny í færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann greinir frá ákvörðun sinni um að skrá sig í nýliðaval NBA deildarinnar.
Faðir hans, LeBron James, er á meðal bestu leikmanna í sögu NBA deildarinnar og verður fróðlegt að sjá hvort að feðgarnir fái tækifæri til að annað hvort spila saman eða á móti hvor öðrum í deildinni á næsta tímabili.
LeBron hefur í það minnsta áður lýst yfir löngun sinni að spila við hlið sona sinna í NBA áður en leikmannaferlinum lýkur.
Nýliðaval NBA deildarinnar fer fram dagana 26.-27.júní síðar á þessu ári.