Þetta kemur fram í umsögn embættisins vegna frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu.
„Nú sem aldrei fyrr er þörf á vitundarvakningu um dauðann og sorgina til undirbúnings fyrir öll. Á árum áður, var dauðinn tíðari heimilisgestur og fyrri kynslóðir lifðu í návígi við dauðann. Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar þarf einnig að gefa meiri gaum að meðferð við lok lífs, hvað fólk vill og vill ekki,“ segir í umsögninni.
Þar segir að allar ákvarðanir er varða takmarkanir við lífslok þarfnist vandaðs og tímanlegs samtals, milli sjúklings og ástvina og sjúklings og heilbrigðisstarfsmanna. Til að skrá samtalið þurfi að koma á miðlægri skráningu, svokallaðir Lífsskrá, og unnið sé að lagastoð vegna þessa í heilbrigðisráðuneytinu.
„Loks þarf að kynna og efla líknarmeðferð sem er orðin að sérgrein innan læknisfræðinnar og sem að stöðugt fleygir fram. Í langflestum tilfellum er nú hægt að veita fullnægjandi líknarmeðferð þannig að einstaklingur fái lifað og dáið með reisn. Til eru góðar leiðbeiningar um líknarmeðferð sem og skýrsla um framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi þar sem fram koma tillögur sem vinna þarf að. Þetta eru brýn mál til úrlausnar áður en farið er að ræða dánaraðstoð,“ segir í umsögninni.
Þess ber að geta að það er aðstoðarmaður Ölmu Möller landlæknis, Kjartan Hreinn Njálsson, sem skrifar undir umsögnina.