Tekist var á um framtíð Menningartengsla Íslands og Rússlands (MÍR) fyrir dómstólum í vetur. Þrír félagsmenn, þar á meðal fyrrverandi formaður til áratuga, stefndu stjórn félagsins til þess að fá ákvörðunum um breytingar á starfseminni og sölu á eignum, þar á meðal húsnæði við Hverfisgötu, sem voru teknar á aðalfundi sumarið 2022 hnekkt.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi aðalfundinn ólöglega boðaðan í dómi sínum í síðasta mánuði. Ákvarðanir sem voru teknar á honum voru því felldar úr gildi, þar á meðal stjórnarkjör.
Sú stjórn sem boðaði til aðalfundarins árið 2022 stefnir enn að því að leggja niður núverandi starfsemi MÍR og selja eignir þess til þess að fjármagna nýjan styrktarsjóð fyrir menningarstarfsemi sem tengist Rússlandi. Einar Bragason, formaður þeirrar stjórnar, sagði Vísi fyrir helgi að unnið væri að undirbúningi nýs aðalfundar.
Geri ekki annað en að þvælast fyrir
Hilmar Garðars Þorsteinsson, lögmaður þremenninganna sem höfðuðu dómsmálið, segir að í ljósi þess að héraðsdómur ógilti stjórnarkjörið á aðalfundinum 2022 sé Einar ekki formaður stjórnar heldur aðeins almennur félagsmaður.
Í skriflegu svari til Vísis segir Hilmar ennfremur að Einar haldi því ranglega fram að umbjóðendur sínir hafi sýnt af sér tómlæti um starfsemi félagsins. Sjálfur geri Einar ekki annað en að þvælast fyrir.
„Þau hafa unnið hörðum höndum að því að skipuleggja aðalfund til þess að koma nýju lífi í félagið, en þessi maður hefur ekkert gert, annað en að brjóta félagslögin og vinna að því að eyðileggja félagið. Sá hinn sami hefur heldur ekki haldið neina viðburði á vegum félagsins árum saman og sóað peningum félagsins til þess að verja vonlausan málstað um ólöglega boðaðan aðalfund,“ segir Hilmar.

Fjöldi nýrra félaga sem vilji legga til vinnu og fé
Strax í kjölfar dómsins í síðasta mánuði hafi stefnendurnir farið skriflega fram á að fá aðgang að húsnæði MÍR að Hverfisgötu 105 til þess að halda félagsfund á sumardaginn fyrsta, 25. apríl. Fyrrverandi stjórn hafi hunsað þá kröfu og hvorki veitt aðgang að húsnæðinu né afhent póstlista til þess að hægt væri að boða til aðalfundar.
Félagsmennirnir þrír, sem eru á níræðis- og tíræðisaldri, segja að nýlega hafi fjöldi fólks sem vill halda starfsemi MÍR gangandi og leggja því til vinnu og fé gengið í félagið.
„Mínir umbjóðendur eru enn fúsir til að halda aðalfund og krefjast þess að svokölluð stjórn þvælist ekki fyrir málinu og tefji það á engum eða ómálefnalegum forsendum,“ segir Hilmar.
MÍR á sér meira en sjötíu ára sögu og var Nóbelsskáldið Halldór Laxness meðal annars fyrsti forseti þess. Þegar starfsemi þess stóð í sem mestum blóma voru félagar á annað þúsund. Einar sagði Vísi í fyrra að verulega hefði fækkað í félaginu og lítill áhugi á starfsemi þess. Það væri því orðið félaginu ofviða að reka stóra fasteign á Hverfisgötu 105.