Dómurinn í máli um tvö þúsund svissneskra kvenna á áttræðisaldri gegn ríkisstjórn þeirra markar tímamót því þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðadómstóll dæmir í máli sem tengist hnattrænni hlýnun.
Á sama tíma vísaði dómstóllinn frá máli fransks bæjarstjóra strandbæjar og hóps portúgalskra ungmenna sem kröfðu stjórnvöld í Frakklandi annars vegar og 32 Evrópuríki hins vegar um harðari loftslagsaðgerðir. Þau vonuðust til þess að Mannréttindadómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að landsstjórnir hefðu lagalega skyldu til þess að halda hlýnun innan marka Parísarsamkomulagsins.
Konurnar sem unnu sitt mál sökuðu svissnesk stjórnvöld um að brjóta á mannréttindum sínum með því að grípa ekki til róttækra aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Rök þeirra voru meðal annars þau að þær væru í aukinni hættu á að láta lífið í hitabylgjum vegna aldurs síns og kyns. Þær gætu ekki farið út úr húsi þegar slíkar hitabylgjur geisa. Lögmenn svissneskra stjórnvalda báru fyrir sig að Sviss gæti ekki leyst loftlagsvandann upp á eigin spýtur.
„Sumar okkar eru bara þannig gerðar. Við erum ekki gerðar til þess að sitja í ruggustól að prjóna,“ sagði Elisabeth Smart, ein svissnesku kvennanna sem höfðuðu málið, um hvernig þær héldu málarekstrinum gangandi í níu ár við breska ríkisútvarpið BBC.

Réttur á vernd gegn áhrifum loftslagsbreytinga
Siofra O'Leary, forseti Mannréttindadómstólsins, féllst á að svissnesk stjórnvöld hefðu brotið á konunum með því að setja sér ekki nægilega kröftuga stefnu í loftslagsmálum. Þá hefðu þau ekki náð eigin markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Töldu dómararnir sautján að áttunda grein Mannréttindasáttmála Evrópu fæli í sér rétt til þess að fólk njóti verndar stjórnvalda gegn skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga á líf þess, velferð og lífsgæði.
Ekki er hægt að áfrýja niðurstöðunni og hún gæti þvingað ríkisstjórnir til þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Ég vonaði virkilega að við ynnum gegn öllum löndunum þannig að ég er augljóslega vonsvikin að það gerðist ekki. En það mikilvægasta er að dómstóllinn segir í máli svissnesku kvennanna að ríkisstjórnir verði að draga frekar úr losun til að vernda mannréttindi. Þeirra sigur er því sigur fyrir okkur líka og sigur fyrir alla!“ sagði Sofia Oliveira, ein portúgölsku stefnendanna sex.
Niðurstaðan er sögð geta haft áhrif á hvernig dómstólar taka afstöðu til sambærilegra mála í 46 ríkjum sem eiga aðild að Evrópuráðinu.
„Þetta er vendipunktur,“ segir Corina Heri, sérfræðingur í loftslagsmálaferlum við Háskólann í Zurich, við AP-fréttastofuna. Niðurstaðan staðfesti í fyrsta skipti að ríki hafi skyldu til að vernda fólk fyrir loftslagsbreytingum. Líklegt sé að fleiri mál fylgi í kjölfarið.
Fréttin verður uppfærð.