Í dag er rætt við nokkrar landsliðskonur í knattspyrnu.
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, markmaður:

„Ég er alvöru sjónvarpsnördi og get þannig séð horft á hvað sem er. Ég er búin með alls konar þáttaraðir eins og Game Of Thrones, Peaky Blinders, Gilmore girls og margt fleira.
Ég er búin að vera horfa mikið á Modern Family undanfarið, létt og gott og maður getur hlegið endalaust af þessu.
Ég er nýbúin að klára Sex and The City líka sem voru geggjaðir!
Maður tengir svo mikið við þá og þeir eru svo fyndnir. Ég og vinkonur mínar ræðum oft um þá og vitnum í þá.“
Ásdís Karen Halldórsdóttir, sóknarmaður:

„Ég hef vanalega ekki horft mikið á sjónvarp fyrr en nú á þessu ári þegar ég flutti ein til Noregs og því er mikill frítími til þess að eyða. Ég hef því verið nokkuð dugleg undanfarið og byrjaði á því að horfa á Beckham þættina. Kom mér á óvart hversu góðir þeir voru, mæli mjög mikið með.
Ég var svo að enda við að klára One day varð alveg smá hooked á þeim og mjög auðvelt að horfa því hver þáttur er bara um 20 mínútur og einungis ein sería til. Svona frekar rólegir þættir en maður getur samt ekki hætt.
Var svo að leita af nýjum þáttum til að byrja á og er byrjuð á Manifest, spennuþættir sem líta mjög vel út en það eru fjórar seríur svo við sjáum hvort ég hafi úthald í það!“
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji:

„Ég verð bara að viðurkenna það að ég hef ekki eytt miklum tíma í hámhorf eftir að ég átti strákinn minn í desember. Er meira bara með eitthvað í gangi í sjónvarpinu en er kannski ekki mikið að fylgast með. Er mikill aðdáandi af The Office þannig þeir eru oft bara í gangi eða Venjulegt fólk.
Ég verð svo að mæla með True Detective. Ég og kærastinn minn horfðum á nýju seríuna með Jodie Foster þegar ég var ólétt og byrjuðum svo í kjölfarið að horfa á seríurnar aftur frá upphafi.
Annars vorum við að byrja horfa á fóstbræður. Kærastinn minn er mikill aðdáandi af fóstbræðrum, þá meina ég mjög mikill aðdáandi því hann kann alla þættina utan af og ef ég fylgist ekki með í nokkrar sekúndur þá spólar hann til baka svo ég sjái sketch‘inn. Þetta er ennþá gott stöff þannig að ég mæli með að fólk kíki á þá aftur.“
Bryndís Arna Níelsdóttir, sóknarmaður:

„Ég viðurkenni það að ég horfi vandræðilega mikið a sjónvarp. Ég gæti örugglega skrifað heila ritgerð um alla þætti sem ég hef séð bara á síðustu sex mánuðum en ég reyni að hafa þetta stutt. Ég hef frekar mikinn tíma þar sem eg er aðallega í fótbolta en líka í fjarnámi sem ég mætti kannski sinna betur.
Aðallega er ég að horfa á Netflix en svo auðvitað fylgist maður lika mikið með enska boltanum og bestu deildinni. Ég er mikið að vinna með íþrottatengda þætti og er ný búin að klára golfþættina Full Swing og tennisþættina Break Point sem ég mæli mikið með fyrir áhugasama.
Svo er ég mjög spennt að horfa á nýju Manchester City þættina sem eru nýkomnir á Netflix. Ég held samt með United þannig gæti verið sma erfitt að endurlifa það þegar City vann þrennuna.
Í gegnum árin hafa raunveruleikaþættirnir verið í miklu uppáhaldi og nýlega hef ég verið að horfa á Selling Sunset og Love is blind. Svo bíð ég spennt eftir seríu sex af The Circle sem kemur út 17 apríl. Ég og Cessa vinkona mín horfðum saman á fyrstu seriurnar og viljum meina það ef við færum í þáttinn myndum við 100% vinna.
Núna er ég algjörlega búin að detta inn í The Rookie sem eru að fá verðskuldaða athygli þessa dagana, skemmtilegir löggu þættir með góðum húmor. Ég er líka að horfa á einn og einn þátt af Love is blind Sweden svona til að ná betri tökum á sænskunni en það gengur misvel.“
Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður:

„Ég er sjúk í norrænar þáttaraðir og er langt komin með allt galleríið þar. Það er bara eitthvað við það að detta niður á góða þætti sem eru sýndir á RÚV, mér finnst það virka meira þroskað en að háma Netflix eða Viaplay.
Ég kláraði nýverið seríu tvö af DNA, sjúkir þættir og ég komst ekki frá skjánum, kemur sér vel að vera í fæðingarorlofi. Ég verð líka að fá að mæla með Úlfur úlfur, þættir sem taka mann inn í heim sem gæti svo vel átt sér stað í raunveruleikanum og sýnir hvað margar fjölskyldur geta verið brotnar og gengið í gegn um margt.
Síðast en alls ekki síst eru sænskir þættir sem heita Snjóenglar, eins og sést þá er rauði þráðurinn í þessu hjá mér drama, það er fínt að fá útrás fyrir drama og spennu í gegn um skjáinn þegar ég fæ hana ekki í gegn um fótboltann þessa dagana.“
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, framherji:

„Ég hef eiginlega engan tíma til að horfa á þætti eða myndir en stundum set ég á Planet Earth því það eru góðar víbrur og maður þarf ekkert þannig séð að fylgjast með en þegar maður horfir í smá er maður alltaf að fara sjá eitthvað töff eða læra eitthvað nýtt um dýr.
Mér finnst líka mjög næs að setja Friends á þó ég sé búin með allar seríurnar allavega þrisvar, það er bara svona þægindaþáttur (e. comfort show).
Mig langar til þess að hafa meiri tíma til að horfa á þætti og planið er að reyna ná að horfa á Ted Lasso og klára Top Boy í sumar. Háleit markmið í hámhorfinu en held það sé alveg raunhæft.“
Sandra María Jessen, kantmaður:

„Það er ekkert betra en að enda daginn á einum til tveimur þáttum eða góðri mynd. Ég kláraði nýlega alla Rookie þættina, síðan kláraði ég One day seríuna í síðustu landsliðsferð á svona tveimur til þremur dögum.
Annars er Grey’s Anatomy klassískt, þægilegt að henda einum þætti af stað á meðan maður er að brasa eitthvað heima og horfir á með.“
Selma Sól Magnúsdóttir, miðjumaður:

„Við Telma herbergisfélaginn minn í landsliðinu erum að vinna núna með One Tree Hill í landsliðsferðunum. Ég að horfa í fyrsta sinn og hún að horfa aftur með mér í ferðunum. Við náum að taka góðar syrpur af hámhorfi þar sem við erum mikið inni á hóteli að stytta okkur stundir ef við erum ekki að horfa á fótbolta eða aðrar íþróttir.
Heima við horfi ég á allt og ekkert, pikka upp nýjustu seríur á Netflix hvort sem það séu crime documentaries, Breaking Bad eða The Office. Ég er að vinna með allan skalann og hef gaman að mikið af sjónvarpsefni.
En þær sem eru mest í uppáhaldi og maður hefur horft á oftar en einu sinni eru New Girl, Parks and Recreation og The Office. Íþróttaseriurnar á Netflix eru einnig must see hjá mér og kærastanum mínum, við horfum á allar íþróttaseríurnar sem hafa komið út, formúla, tennis, quartherback bara you name it. Norskt raunveruleikasjónvarp sömuleiðis þar sem ég bjó þar og hef gaman að.“