„Við erum að íhuga það,“ svaraði forsetinn þegar hann var spurður út í málið á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær, þar sem hann tók á móti Fumio Kishida, forsætisráðherra Japan.
Yfirréttur í Lundúnum úrskurðaði í síðasta mánuði að Assange yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna að svo stöddu, heldur yrði yfirvöldum vestanhafs gefnar þrjár vikur til að leggja fram gögn til að sýna fram á að Assange myndi fá að vísa til tjáningarfrelsisins við réttarhöld, að honum yrði ekki mismunað við réttarhöldin né við afplánun og að hann ætti ekki yfir höfði sér dauðarefsinguna.
Stella Assange, eiginkona Julian, hefur skorað á stjórnvöld í Bandaríkjunum að falla frá málsókninni gegn eiginmanni sínum frekar en að halda áfram með málið í Bretlandi.
Áður en yfirréttur kvað upp dóm sinn hafði verið greint frá því að dómsmálaráðuneytið væri að íhuga að bjóða Assange dómsátt, sem fæli í sér að hann játaði að hafa misfarið með leynileg gögn gegn því að vera ekki sóttur til saka fyrir njósnir og fleiri alvarlegri glæpi.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, kallaði fréttaflutninginn „vangaveltur“ og benti á ummæli lögmanns Assange, sem sagði ekkert benda til annars en að Bandaríkjamenn væru enn staðráðnir í að fá Assange framseldan.