„Það var ekki snjóflóð,“ segir Minney Sigurðardóttir ofanflóðasérfræðingur. Það sé afar slæm færð á Siglufjarðarvegi og að fólk hafi mögulega keyrt utan í stóran skafl.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir að búið sé að beina þyrlu Landhelgisgæslunnar aftur til Reykjavíkur og afturkalla eitthvað af björgunarsveitarfólki. Það verði samt sem áður einhver eftir á svæðinu til að leita af sér allan grun.
„Þetta er ekki snjóflóð. Þetta er allt að skýrast,“ segir Jón Þór og að maður frá björgunarsveit á svæðinu hafi aðstoðað þónokkra sem hafi verið fastir vegna lélegrar færðar. Auk þess hafi snjómoksturstæki frá Veðurstofunni keyrt í gegn.
„Það kannast enginn við að hafa séð snjóflóð falla né á veginum. Það er því verið að draga úr viðbúnaði en við viljum vera alveg viss um að það hafi ekki fallið snjóflóð þannig það verður gengið úr skugga um að svo hafi ekki verið.“
Á vef Vegagerðarinnar segir að þæfingsfærð og skafrenningur sé á Siglufjarðarvegi og slæmt skyggni. Óvissustig er á veginum vegna snjóflóða.

Fréttin hefur verið uppfærð.