Þetta kemur fram í fjármálaáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem kynnt var í dag. Áætlunin er fyrir árin 2025 til 2029.
Áframhaldandi kaupmáttarvöxtur
Vöxtur kaupmáttar hér á Íslandi hefur verið langt umfram það sem þekkist hjá öllum öðrum ríkjum Vestur-Evrópu undanfarinn áratug. Með fjármálaáætlun er lagður grunn að áframhaldandi kaupmáttarvexti.

„Lífskjarabatinn birtist víðar en í vexti kaupmáttar. Þannig hafa skuldir heimilanna sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við ráðstöfunartekjur þeirra,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins um áætlunina.
Gæta aðhalds
Ríkisstjórnin mun gæta aðhalds í opinberum fjármálum og helminga halla ríkissjóðs á næsta ári, úr 49 milljörðum króna í 25 milljarða króna. Árið 2028 verður hallinn svo að afgangi.
Útgjöld til heilbrigðismála og félags- og tryggingamála vega þyngst á tímabili fjármálaáætlunar og samsvara um helmingi af heildarútgjalda ríkissjóðs.
„Ekki er almenn aðhaldskrafa á heilbrigðis- og velferðarmál og verður áfram forgangsraðað til þeirra málaflokka en útgjöld verða þar aukin um 80 milljarða króna milli 2024 og 2029 sem svarar til tæplega 12% aukningar að raunvirði,“ segir í tilkynningunni.
Auðvelda verkefni Seðlabankans
Aukinn kraftur verður settur í að bæta skilvirkni hins opinbera og stofnanaskipulagið við rekstur opinberrar þjónustu endurmetið. Miklir möguleikar liggi þar í að nýta fjármagn betur og gera stofnanir burðugri til að veita þjónustu sem þörf er á.
„Útgjöld ríkissjóðs og hins opinbera í heild munu því vaxa hóflega í ár og á tímabili fjármálaáætlunar. Með hægfara útgjaldavexti er stefnt að því að hlutfall heildarútgjalda hins opinbera af vergri landsframleiðslu, sem í ár mun nema um 44%, verði orðið tæplega 41% undir lok tímabilsins. Með þeim hætti auðvelda opinber fjármál það verkefni Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi,“ segir í tilkynningunni.
Ná að fjármagna aðgerðir í tengslum við kjarasamninga
Þá munu stjórnvöld ráðast í aðgerðir samhliða gerð kjarasamninga og með þeim á að auka ráðstöfunartekjur heimila með sérstakri áherslu á húsnæðisuppbyggingu, húsnæðisstuðning og málefni barnafjölskyldna.
„Þökk sé hóflegum vexti annarra útgjalda eins og fram hefur komið og nokkrum áframhaldandi vexti í tekjum ríkissjóðs næst að fjármagna aðgerðir til stuðnings kjarasamningum á komandi árum,“ segir í tilkynningunni.
Draga úr óvissu
Einnig munu stjórnvöld leggja ríka áherslu á að kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði samrýmist þeirri heildarstefnunni sem hefur verið mörkuð á almennum vinnumarkaði.
„Mikilvægt er að um verði að ræða langtímasamninga sem dragi úr óvissu og styðji við lækkun verðbólgu. Aðeins þannig myndast skilyrði fyrir lækkun vaxta,“ segir í tilkynningunni.