Presturinn, Mar Mari Emmanuel, var með morgunmessu í kirkjunni þegar ungur karlmaður, sem sagður er vera einungis sextán ára gamall, gekk upp að honum og réðst á hann vopnaður hnífi. Eftir atlöguna yfirbuguðu gestir kirkjunnar manninn en við það náði hann að særa þrjá aðra lítillega. Hann var síðan handtekinn skömmu síðar.
Mari Emmanuel er vinsæll á samfélagsmiðlum og var morgunmessunni streymt á veraldarvefnum þar sem alltaf að milljón manns fylgjast með hverri athöfn. Myndband af árásinni úr streyminu hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Í grein breska ríkisútvarpsins segir að lögreglan í Sydney telji árásina hafa verið hryðjuverk. Árásarmaðurinn hafi verið öfgamaður en lögreglan neitar að gefa upp hvaða trúarbrögð maðurinn aðhylltist.
Talið er að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki en lögreglan þekkti til hans. Hann var þó ekki á neinum lista yfir þá sem þykja líklegir til að fremja hryðjuverk.