Skoðun

Ör­yrkjar aug­lýsi eftir harð­orðum mót­mælum!

Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar

Eiga öryrkjar borga fyrir kjarasamninga?

Skammastu þín Sigurður Ingi Jóhannsson!

Hvar eru harðorð mótmæli verkalýðsfélaganna núna?

Erum við „breiðu bökin“? VIÐ beygðu og brotnu hlekkirnir sem eigum vart til hnífs og skeiðar, VIÐ sem mörg hver búum við sárafátækt, VIÐ sem erum búin að slíta okkur út í erfiðisvinnu langt fyrir aldur fram........

Ég er fædd 1966 og byrjaði að vinna fullan vinnudag 14 ára, oftast erfiðisvinnu og langa vinnudaga, aldrei neitaði maður aukavinnu né hlífði sér við erfiðisvinnu, vann oftast við bónuskerfi svo aldrei var slegið af.

Í Bæjarútgerð Reykjavíkur í kringum 1980 unnum við stundum frá 6 að morgni fram á 22 á kvöldin, þá leit vikan út svona þegar mest var að gera.

Mætt á mánudegi klukkan 6 unnið til 22, þriðjudag til fimmtudags mætt 8 og unnið til 22, föstudag mætt 8 unnið til 16, ball um kvöldið, laugardag mætt 6 unnið til 16, ball um kvöldið, svo aftur næstu vikur.

Kannski ekki skrítið að maður hafi verið búinn líkamlega um þrítugt og eftir langa baráttu við kerfið komin á aumingjabætur.

Við börðumst með Gvendi Jaka, fórum í verkföll, börðumst fyrir betri kjörum fyrir komandi kynslóðir.

Ég gladdist þegar Sólveig Anna og Ragnar Þór fóru að hafa hátt og rugga bátnum, loksins var komið fólk sem var tilbúið að berjast fyrir okkur láglaunafólkið, rífa verkalýðsbaráttunna í gang eftir margra ára stöðnun.

En hvar eruð þið núna þegar við veikustu hlekkirnir þörfnumst ykkar?

Ekki nóg með að verkalýðsfélögin séu hætt að taka mál öryrkja með þegar gerðir eru kjarasamningar heldur eigum við að borga kjarabætur verkafólks, af hverju er enginn að mótmæla?

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Viðhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna

Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar – sambands iðnfélaga

og Ragnar Þór Ingólfsson formaður stéttarfélagsins VR

Hvar eruð þið? ætlið þið bara að láta þetta gerast hávaða laust?

Ekki getum við öryrkjar farið í verkföll né samið um neitt.

Við erum með mun minna á mánuði en lægstu textar fyrir síðustu kjarasamninga, þið fáið góða hækkun en við erum skilin eftir og eigum að borga brúsan og engin mótmælir!

Höfundur er öryrki




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×