Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglu, segir í samtali við fréttastofu að einangrun yfir þremenningunum verði aflétt. Farið verði fram á fjögurra vikna varðhald.
Málið má rekja til þess þegar lögregla réðst í umfangsmiklar aðgerðir þann 5. mars á veitingastöðum og gistihúsum í eigu Davíðs. Herkastalinn í miðbæ Reykjavíkur er enn lokaður og það sama má segja um veitingastaðina Pho Vietnamese og Wok On.
Grímur segir rannsókn málsins í fullum gangi, miði vel þótt hún sé flókin. Þetta er gríðarlega viðamikil rannsókn. Yfirheyrslur ganga hægt, þarf að túlka allt saman. Sakborningar eigi rétt á því að yfirheyrslur fari fram á þeirra móðurmáli. Þeir eru allir frá Víetnam eins og brotaþolarnir, fyrrverandi starfsfólk á veitingastöðum Quang Le.
Grímur segist ekki vita til þess að brotaþolar í málinu hafi yfirgefið landið. Forsvarsmenn ASÍ hafa bent á að passa þurfi upp á þetta fólk sem hafi verið brotið á hér á landi og eigi á hættu skerðingu á réttindum sínum vegna þess að skyndilega hafi það ekki vinnu hjá fyrirtækjum Quang Le.
Davíð Viðarsson, íslenskur karlmaður, lýsti samskiptum sínum við nafna sinn í síðustu vikum. Hvernig Davíð hefði farið til Víetnam árið 2004 og gifst konu sem reyndist vera ástkona Quang Le. Hún eignaðist tvö börn sem eru enn þann dag í dag skráð sem börnin hans. Þá kom honum í opna skjöldu þegar Quang Le tók upp nafnið Davíð Viðarsson í upphafi árs 2023.
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við öllum ábendingum og myndum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.