Árið 2020 vann Kári sinn níunda Íslandsmeistaratitil en hann lagði svo spaðann á hilluna. Hann sneri hins vegar aftur um helgina og bætti tíunda titlinum við, með því að vinna Róbert Henn í úrslitaleik, 21-13 og 21-19.
Gerda, sem er frá Litháen, varði Íslandsmeistaratitil sinn frá því í fyrra en þá hafði hún í fyrsta sinn keppnisrétt á mótinu eftir að hafa búið á Íslandi í þrjú ár. Í úrslitaleiknum í ár vann Gerda sigur gegn Sigríði Árnadóttur, 21-17 og 21-9.

Gerda vann tvöfalt í ár því hún fagnaði einnig sigri í tvíliðaleik með Drífu Harðardóttur úr ÍA. Þær unnu fyrrnefnda Sigríði Árnadóttur og Örnu Karen Jóhannsdóttur í æsispennandi úrslitaleik; 15-21, 22-20 og 21-19.
Kári keppti einnig í tvíliðaleik, með yngri bróður sínum Ívari, en þeir féllu út í undanúrslitum gegn þeim Davíð Bjarna Björnssyni og Kristófer Darra Finnssyni sem unnu Íslandsmeistaratitilinn.

Davíð og Kristófer unnu Daníel Jóhannesson og Jónas Baldursson í úrslitaleik, 21-16 og 21-12. Davíð fagnaði einnig sigri í tvenndarleik með Örnu Karen Jóhannsdóttur en þau unnu Kristófer og Drífu; 21-18, 21-23, 21-15.
