Fótbolti

Fá loks að halda sigrinum sem þrjú lið mót­mæltu

Sindri Sverrisson skrifar
Patrick Drewes fékk kveikjarara í höfuðið frá stuðningsmanni Union Berlín, í útileik með Bochum þann 14. desember.
Patrick Drewes fékk kveikjarara í höfuðið frá stuðningsmanni Union Berlín, í útileik með Bochum þann 14. desember. Getty/Maja Hitij

Bochum á enn von um að halda sér uppi í þýsku 1. deildinni í fótbolta nú þegar liðið er öruggt um þrjú stig úr leik fyrir fjórum mánuðum við Union Berlín sem reyndar endaði 1-1.

Hlé var gert á leik liðanna í desember eftir að stuðningsmaður Union Berlín kastaði kveikjara í höfuð Patrick Drewes, markvarðar Bochum.

Staðan var þá orðin 1-1 en eftir hálftíma langt hlé var niðrustaðan sú að Drewes gæti ekki haldið áfram leik. Dómarinn tók hins vegar þá ákvörðun að leikurinn skyldi kláraður og fór þá útileikmaður Bochum í markið þar sem að liðið hafði klárað sínar skiptingar. 

Hvorugt liðanna sýndi því hins vegar áhuga að skora eftir þetta. 

Þýska knattspyrnusambandið dæmdi svo Bochum 2-0 sigur vegna málsins en Union Berlín, Holstein Kiel og FC St. Pauli áfrýjuðu þeirri niðurstöðu. Nú er aftur á móti ljóst að ákvörðunin mun standa.

Bochum er þó áfram neðst í deildinni en með 21 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, stigi á eftir Kiel og fjórum stigum frá Heidenheim sem er í 16. sæti en það er svokallað umspilsfallsæti. Bochum er átta stigum frá næsta örugga sæti en á raunhæfa möguleika á að komast upp fyrir Heidenheim og í umspil um að halda sér í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×