Kasatkina segir að hún hafi fengið tryggingu fyrir því að hún væri örugg þegar og ef hún keppir einhvern tímann í Sádi Arabíu.
„Ég hef fengið fullvissu um það að allt verði í fínu lagi,“ sagði Kasatkina við breska ríkisútvarpið en hún er eins og er í ellefta sæti á heimslistanum. Mannréttindabrot eru þekkt í Sádi Arabíu og ekki síst gagnvart samkynhneigðu fólki. Stjórnvöld hafa beitt sérstökum sakamáladómstól til kerfisbundinnar þöggunar í landinu.
Kasatkina hafði lýst yfir efasemdunum um einmitt þetta þegar hún var spurð út í þetta á blaðamannafundi á Wimbledon mótinu í fyrra. Hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir og transfólk hafa löngum þurft að sæta mismunun og ofbeldi vegna kynhnreigðar- eða vitundar sinnar.
Eftir sigur á Anastasia Pavlyuchenkova á Opna Madrid mótinu um helgina þá talaði hún aftur á móti með því að fara með úrslitamót WTA-mótaraðarinnar til Riyadh í Sádi Arabíu. Lokamót tímabilsins verður næstu þrjú árin í Sádi Arabíu.
„Ef ég kemst inn á það mót þá þýðir það að ég er ein af átta bestu í heimi. Það yrðu frábærar fréttir fyrir mig,“ sagði Kasatkina.
„Við sjáum að Sádarnir hafa mikinn áhuga á íþróttum og þeir vilja þróa og efla íþróttirnar. Svo framarlega sem þessi þróun gefur fólkinu, krökkunum og konunum jöfn tækifæri til að koma og horfa á keppnirnar. Að þau fái að horfa, keppa og taka þátt í þessu þá er þetta bara frábært,“ sagði Kasatkina.
Réttindi kvenna í Sádi-Arabíu hafa verið bágborin. Konur ráða ekki yfir lífi sínu þar sem þær þurfa að lúta forsjá karlmanns. Einhverjar umbætur í lögum hafa þó verið gerðar á síðustu árum.