Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Staðan var auglýst þann 19. febrúar og bárust átta umsóknir um stöðuna. Þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd var skipuð til undirbúnings skipunar í embættið í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.
Með flutningi Hermanns hefur ráðherra fallið frá því ráðningarferli og nýtt sér heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að flytja annan embættismann í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Hermann tekur við stöðunni frá og með 1. maí 2024.
Embættismaður hokinn af reynslu
Hermann hefur 28 ára reynslu af því að starfa í Stjórnarráðinu. Hann réðist fyrst til starfa í október 1996 sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu og var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002.
Síðan þá hefur hann meðal annars starfað sem ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 2002 til 2004 og sem fulltrúi tveggja ráðuneyta í sendiráði Íslands í Brüssel frá 2004 og 2008.
Hann hefur einnig starfað sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og forsætisráðuneytinu. Hermann var skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.
Hermann er fæddur árið 1965, tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum árið 1996 í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði.