Sex leikmenn komust í liðið bæði hjá Baldri og Atla Viðari en þeir voru ósammála um fimm stöður. Þá var Baldur með Arnar Gunnlaugsson sem þjálfara liðsins en Atli Viðar valdi Heimi Guðjónsson.
Valið var rætt eftir að 5. umferðinni lauk en sú umferð tilheyrði maímánuði.
„Þessi umferð var ekki tekin með sko. Tveir Víkingar? Ég er bara hissa,“ sagði Baldur þegar hann sá liðið hans Atla Viðars sem var með Karl Friðleif Gunnarsson og Danijel Dejan Djuric í sínu liði, sem fulltrúa Víkinga sem fengu fullt hús stiga í apríl.

„Það hefðu sannarlega getað verið fleiri og einhverjir Víkingar geta verið svekktir, en ég fór þá leið að velja leikmenn sem mér fannst hafa staðið upp úr, og líka ekki síst þá sem hafa stigið upp. Við hefðum getað fyllt þetta lið af Víkingum, vissulega,“ sagði Atli Viðar.
Gummi Ben benti þá á að oft væri það nú þannig að bestu leikmennirnir, og besta liðið, ætti meiri athygli skilið. Umræðuna má sjá hér að neðan.
Baldur var með fjóra Víkinga í sínu liði, sem og þjálfarann, en sá reyndar strax eftir því að hafa ekki valið einn af þeim mönnum sem Atli Viðar valdi. Sá var Benedikt Warén úr Vestra:
„Hann var einn af fyrstu mönnum á blað hjá mér. „Match winner“ í báðum leikjunum sem Vestri hefur unnið,“ sagði Atli Viðar.
Leikmennirnir sem komust í bæði lið voru þeir Karl Friðleifur Gunnarsson, Kyle McLagan, Björn Daníel Sverrisson, Viktor Karl Einarsson, Jason Daði Svanþórsson og Viktor Jónsson.
Liðin og umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.