Stórhættulegir ágallar á örorkufrumvarpi ríkisstjórnarinnar Jóhann Páll Jóhannsson skrifar 9. maí 2024 09:31 Árum saman hefur öryrkjum verið synjað um nauðsynlegar kjarabætur og kerfisbreytingar á þeim forsendum að „heildarendurskoðun“ á örorkulífeyriskerfinu þurfi að fara fram. Nú er stundin runnin upp. Frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu hefur verið flutt á Alþingi og er til umfjöllunar í velferðarnefnd þar sem ég sit sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Frumvarpið felur í sér löngu tímabæra sameiningu greiðsluflokka og einföldun á skerðingarreglum, mikilvægar breytingar á fyrirkomulagi endurhæfingar og fleira sem mun skipta máli fyrir fjölda fólks. En á frumvarpinu eru líka alvarlegir ágallar sem verður að laga. Enginn öryrki og enginn fulltrúi frá ÖBÍ né öðrum samtökum fatlaðs fólks átti sæti í stýrihópi og sérfræðingateymi ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Fram hefur komið að ekki var haft raunverulegt samráð við heildarsamtökin fyrr en eftir að frumvarpsdrög lágu fyrir. Þá var brugðist með afar takmörkuðum hætti við athugasemdum og þær veigamestu hunsaðar. Frumvarpið var lagt fram fjórum mánuðum seinna en til stóð samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og nú er gert ráð fyrir að þingið afgreiði málið með hraði á þeim örfáu vikum sem eftir eru af yfirstandandi löggjafarþingi. Þetta er óboðleg staða. Lífsafkoma meira en 20 þúsund Íslendinga er í húfi og flumbrugangur ekki í boði. Hópur tekjulægri öryrkja situr eftir Flestir öryrkjar munu njóta góðs af breytingunum sem felast í frumvarpi ráðherra. Þó er ljóst að í ákveðnum tilvikum munu árstekjur öryrkja lækka, einkum hjá þeim sem búa einir, eru algerlega óvinnufærir og hafa engin eða mjög lítil réttindi í lífeyrissjóðum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um lækkun á heimilisuppbót og lækkun og þrengingu á aldursviðbót, en þetta eru greiðsluflokkar sem skipta þennan hóp öryrkja miklu máli. Öryrki sem er á aldrinum 18 til 24 ára við fyrsta mat, býr einn og er hvorki með tekjur úr lífeyrissjóði né af vinnumarkaði hækkar um 4.020 kr. á mánuði samkvæmt frumvarpinu. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Á undanförnum árum hafa öryrkjar fengið eingreiðslu í desember, skatta- og skerðingarlaust, sem hefur verið kynnt sem bráðabirgðaaðgerð á meðan heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins stendur enn yfir. Að óbreyttu má ætla að fallið verði frá útborgun eingreiðslunnar á næsta ári þegar nýtt örorkulífeyriskerfi hefur tekið gildi. Heildaráhrifin verða þau að árstekjur öryrkjans sem býr einn, fékk ungur örorkumat og er óvinnufær munu lækka um u.þ.b. 20 þúsund krónur. Landssamtökin Þroskahjálp hafa lýst áhyggjum af stöðu fólks með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir, en meirihluti þess hefur engar aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er hætt við að nokkur fjöldi öryrkja verði fyrir tekjurýrnun ef fallið verður frá eingreiðslunni og ekki verða gerðar breytingar á frumvarpi ráðherra. Að þessu leyti er yfirskriftin „Öll með“ rangnefni. Það eru ekki öll með. Til að koma í veg fyrir að nokkur öryrki verði fyrir tekjurýrnun væri réttast að falla frá eða draga úr þeirri lækkun sem lögð er til á aldursviðbót og heimilisuppbót í frumvarpinu. Fleiri bera skarðan hlut frá borði Í dæminu hér að framan er horft til hóps sem er nú þegar með 75% örorkumat og áhrifa nýs kerfis á kjör hans. Sama gildir um reiknivél ráðuneytisins þar sem fólk getur borið saman hvað það fær í núverandi greiðslukerfi og hvað það myndi fá í nýju kerfi. En að hinu þarf líka að hyggja: hvernig öryrkjum framtíðar – þeim sem koma nýir inn í kerfið – mun reiða af í nýja greiðslukerfinu í samanburði við greiðslurnar sem þeir myndu fá ef kerfinu yrði ekki breytt. Af greinargerð frumvarpsins og kynningu þess er ljóst að gert er ráð fyrir að stór hluti fólk sem mun fá fyrsta mat á næstu árum verði metið með 26-50% starfsgetu og sett á hlutaörorkulífeyri, fólk sem í mörgum tilvikum hefði verið metið með 75% örorku samkvæmt núverandi kerfi. Í nýja kerfinu mun fólk á hlutaörorkulífeyri eiga rétt á tímabundnum virknistyrk meðan á atvinnuleit stendur sem nemur mismun hlutaörorkulífeyris og fulls örorkulífeyris. Í ljósi þess að virknistyrkur fellur niður við fyrstu krónu sem fólk vinnur sér inn þurfa atvinnutekjur vegna hlutastarfs að vera um eða yfir 250 þúsund krónur á mánuði svo að heildartekjur verði ekki lægri í nýja kerfinu en þær hefðu verið miðað við 75% örorkumat í núverandi kerfi. Dæmi: Ef 24 ára einstaklingur með hlutaörorkulífeyri sem býr einn og er ekki með lífeyrissjóðstekjur tekur að sér verkefni eða vinnur hlutastarf fyrir 200 þúsund krónur á mánuði, þá verða mánaðarlegar heildartekjur hans 24 þúsund krónum lægri samkvæmt nýja kerfinu heldur en ef hann gengi inn í greiðslukerfið eins og það er í dag. Loks er ljóst frumvarpið kemur illa við þann hóp sem hefur ekki áunnið sér fullan rétt til lífeyris innan almannatryggingakerfisins vegna stuttrar búsetu hér á landi. Sérstök framfærsluuppbót fellur brott án þess að fyrir liggi hvernig framfærsla fólksins verður tryggð. Þetta er fólkið sem lagði ríkið í dómi Hæstaréttar nr. 52/2021 þar sem staðfest var að stjórnvöldum er óheimilt að binda fjárhæð uppbótar á lífeyri við búsetu á Íslandi og að slíkt gengur í berhögg við markmið laga um félagslega aðstoð. Það er lítil huggun fólgin í því fyrir þennan hóp að „verið sé að skoða ýmsar leiðir“ til að koma til móts við hann eins og það er orðað í greinargerð frumvarpsins. Af þeim upplýsingum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda má ráða að krónu-móti-krónu skerðing verði tekin aftur upp gagnvart öryrkjum í þessari stöðu. Gallaður virknistyrkur: Ný ofurskerðing og refsivöndur Ákvæði frumvarpsins um virknistyrk eru meingölluð og geta beinlínis unnið gegn markmiðinu um aukna virkni. Í fyrsta lagi mun virknistyrkurinn falla alfarið niður um leið og fólk vinnur sér inn eina krónu í atvinnutekjur. Fjárhæð virknistyrks nemur 95 þúsund krónum á mánuði sem þýðir að ábatinn af því að vinna sér inn 100 þúsund krónur er 5 þúsund krónur fyrir skatt. Öryrkjar í atvinnuleit munu í raun sæta strangari reglum en aðrir atvinnuleitendur sem í dag njóta 86.114 kr. frítekjumarks á mánuði og hafa þannig svigrúm til að sinna tilfallandi vinnu án þess að verða fyrir skerðingu. Einstaklingur með skerta starfsgetu mun aðeins fá greiddan virknistyrk, fulla framfærslu, ef hann er reiðubúinn að taka hverju því starfi sem býðst, óháð menntun, áhugasviði og hæfileikum. Almenna reglan verður sú að ef öryrkinn hafnar starfi eða atvinnuviðtali er honum refsað með tveggja mánaða niðurfellingu virknistyrksins. Ef það gerist aftur er öryrkjanum refsað með þriggja mánaða niðurfellingu. Dæmi: 55 ára kona í sambúð hefur misst starfsgetuna og er á hlutaörorkulífeyri og virknistyrk með samtals 380 þúsund krónur á mánuði. Hún fer í atvinnuviðtal og býðst starf en líst ekki á aðstæður og hættir við. Tekjur hennar næstu tvo mánuði súnka þá niður í 285 þúsund krónur fyrir skatt. Í álitsgerð sem MAGNA-lögmenn unnu fyrir ÖBÍ er bent á að samspil þessara reglna leiðir til þess að „eigi atvinnuleitandi erfitt uppdráttar við atvinnuleit, mæti fordómum á vinnumarkaði eða bjóðist ekki starf við hans hæfi geti það leitt til skertrar framfærslu. Eru reglurnar ósveigjanlegar og illa til þess fallnar að mæta fötluðu fólki og síst til þess fallnar að stuðla að farsælli endurkomu á vinnumarkað.“ Þannig er fólk með skerta starfsgetu sett í niðurlægjandi stöðu á vinnumarkaði með refsikenndum ákvæðum sem hljóta að ýta undir streitu og vanlíðan. Það er óskiljanlegt að frumvarpið hafi verið lagt fram í þessari mynd. Öryrkjar Íslands eiga að njóta virðingar og mannlegrar reisnar og þessa refsistefnu verður að þurrka út úr frumvarpinu. Valdframsal til ráðherra og TR Ein stærsta breytingin er að tekið verður upp „samþætt sérfræðimat“ í stað læknisfræðilegs örorkumats. Framkvæmd þessa sérfræðimats verður forsendan fyrir greiðslu örorkulífeyris og sá grundvöllur sem stjórnarskrárbundinn réttur fólks til framfærsluaðstoðar verður ákvarðaður samkvæmt. Þannig hlýtur að skipta öllu máli hvað nákvæmlega felst í samþættu sérfræðimati, hverjir efnisþættir þess eru, hvaða sjónarmið og mælikvarðar munu ráða för og hvers konar aðferðafræði og sérfræðiþekkingu verður byggt á. Þessum spurningum er hins vegar ekki svarað í frumvarpinu heldur er ráðherra falið að útfæra þessi grundvallaratriði í reglugerð. Tryggingastofnun, sem mun framkvæma matið, fær nær engar leiðbeiningar um framkvæmdina í lagatexta. Þar segir einungis að stofnunin skuli „byggja á fyrirliggjandi gögnum um færni umsækjanda til atvinnuþátttöku og árangur endurhæfingar eftir því sem við á“ og að hún skuli „afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga“ og „óska eftir umsögnum sérfræðinga ef þörf er á“. Fyrir liggur að starfshópur sem mun þróa staðlað matstæki vegna samþætts sérfræðimats er rétt að hefja störf og gert hefur verið ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt án þess að fyrir liggi drög að reglugerð um helstu efnisþætti sérfræðimatsins. Með þessu yrðu meiriháttar völd framseld til ráðherra og Tryggingastofnunar um það hvernig rétturinn til framfærslu verður ákvarðaður. Þannig myndi Alþingi í raun samþykkja grundvallarbreytingu á örorkulífeyriskerfinu án þess að vita hvað felst í breytingunni. Ekki hægt að hleypa málinu óbreyttu gegnum Alþingi Í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra er gert ráð fyrir að ýmsar alvarlegar brotalamir í örorkulífeyriskerfinu verði áfram til staðar, atriði sem ætti sannarlega að breyta þegar „heildarendurskoðun“ á kerfinu fer fram. Um þetta mun ég fjalla síðar, bæði í þingsal og í annarri grein hér á Vísi.is. Frumvarpið tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2025. Í ljósi þess hve alvarlegir ágallar eru á málinu hlýtur að koma til álita að klára ákveðna grundvallarþætti þess og lögfesta nú á vorþingi, meðal annars ákvæði frumvarpsins um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, þjónustugátt, samhæfingarteymi og samstarf og samfellu milli þjónustukerfa, en gefa að öðru leyti félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneyti hans svigrúm til að vinna málið betur. Endurbætt frumvarp yrði þá lagt fram strax og þing kemur saman í haust og afgreitt á Alþingi fyrir áramót. Með þessu gæfist einnig tími til að útfæra og kynna hið samþætta sérfræðimat. Ef ekki er vilji til að skipta upp vinnunni með þessum hætti þá er það krafa okkar í Samfylkingunni að brugðist verði með afgerandi hætti við helstu ágöllum frumvarpsins og þeir lagaðir svo fólk í viðkvæmri stöðu þurfi ekki að hafa áhyggjur af áhrifum breytinganna á sitt daglega líf. Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar Málefni fatlaðs fólks Heilbrigðismál Félagsmál Samfylkingin Jóhann Páll Jóhannsson Alþingi Mest lesið Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Fyrstu jólin eftir ástvinamissi Anna Sigurðardóttir Skoðun Atvinnumál fatlaðra Ína Valsdóttir Skoðun „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson Skoðun Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Fyrstu jólin eftir ástvinamissi Anna Sigurðardóttir skrifar Skoðun Skyndihjálp: Lykillinn að öruggara samfélagi Hildur Vattnes Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Það er ekki nóg að vera klár stelpa/strákur/stálp Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Kosningum lokið og hvað nú? Ólafur Ágúst Hraundal skrifar Skoðun „Þetta er ekki hægt, en það verður samt að gera þetta“ Arnar Þór Jónsson skrifar Skoðun Mýtan um sæstreng! Andrés Pétursson skrifar Skoðun Kvennaárið 2025 Drífa Snædal skrifar Skoðun Bíp Bíp Bíp Ágúst Mogensen skrifar Skoðun Samviskufrelsi heilbrigðisstarfsmanna ekki vandamál þegar kemur að dánaraðstoð Ingrid Kuhlman skrifar Skoðun Milljónerí Hannes Örn Blandon skrifar Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir skrifar Skoðun Hvað er borgaraleg pólitík? Guðjón Heiðar Pálsson skrifar Skoðun Ríkisstjórn verðmætasköpunar Sigríður Mogensen skrifar Skoðun Þorlákshöfn - byggð á tímamótum Anna Kristín Karlsdóttir skrifar Skoðun Hagsmunamál fyrirtækjanna í stjórnarsáttmála Ólafur Stephensen skrifar Skoðun Er lausnin í leikskólamálum að grafa undan atvinnuþátttöku og jafnrétti? Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar Skoðun Lýðræði hinna sterku Jón Páll Hreinsson skrifar Skoðun Bleikir hvolpar Darri Gunnarsson,Rósa Líf Darradóttir skrifar Skoðun Lifandi dauð! Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Það hafa allir sjötta skilningarvit Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Skoðun mín á alþingiskosningum 2024 Valgerður Bára Bárðardóttir skrifar Skoðun Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar Skoðun Skautaíþróttir í Reykjavík í dauðafæri - kýlum á stækkun Skautahallarinnar Bjarni Helgason skrifar Skoðun Hlustið á fólkið í skólunum? Dóra Þorleifsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægasta atkvæðið Kristbjörg Þórisdóttir skrifar Skoðun Nálgunarbann Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Kosningasigur fyrir dýravernd Árni Stefán Árnason skrifar Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir skrifar Skoðun Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Snúum samfélagi af rangri leið Finnbjörn A. Hermansson skrifar Sjá meira
Árum saman hefur öryrkjum verið synjað um nauðsynlegar kjarabætur og kerfisbreytingar á þeim forsendum að „heildarendurskoðun“ á örorkulífeyriskerfinu þurfi að fara fram. Nú er stundin runnin upp. Frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu hefur verið flutt á Alþingi og er til umfjöllunar í velferðarnefnd þar sem ég sit sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Frumvarpið felur í sér löngu tímabæra sameiningu greiðsluflokka og einföldun á skerðingarreglum, mikilvægar breytingar á fyrirkomulagi endurhæfingar og fleira sem mun skipta máli fyrir fjölda fólks. En á frumvarpinu eru líka alvarlegir ágallar sem verður að laga. Enginn öryrki og enginn fulltrúi frá ÖBÍ né öðrum samtökum fatlaðs fólks átti sæti í stýrihópi og sérfræðingateymi ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Fram hefur komið að ekki var haft raunverulegt samráð við heildarsamtökin fyrr en eftir að frumvarpsdrög lágu fyrir. Þá var brugðist með afar takmörkuðum hætti við athugasemdum og þær veigamestu hunsaðar. Frumvarpið var lagt fram fjórum mánuðum seinna en til stóð samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og nú er gert ráð fyrir að þingið afgreiði málið með hraði á þeim örfáu vikum sem eftir eru af yfirstandandi löggjafarþingi. Þetta er óboðleg staða. Lífsafkoma meira en 20 þúsund Íslendinga er í húfi og flumbrugangur ekki í boði. Hópur tekjulægri öryrkja situr eftir Flestir öryrkjar munu njóta góðs af breytingunum sem felast í frumvarpi ráðherra. Þó er ljóst að í ákveðnum tilvikum munu árstekjur öryrkja lækka, einkum hjá þeim sem búa einir, eru algerlega óvinnufærir og hafa engin eða mjög lítil réttindi í lífeyrissjóðum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um lækkun á heimilisuppbót og lækkun og þrengingu á aldursviðbót, en þetta eru greiðsluflokkar sem skipta þennan hóp öryrkja miklu máli. Öryrki sem er á aldrinum 18 til 24 ára við fyrsta mat, býr einn og er hvorki með tekjur úr lífeyrissjóði né af vinnumarkaði hækkar um 4.020 kr. á mánuði samkvæmt frumvarpinu. Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Á undanförnum árum hafa öryrkjar fengið eingreiðslu í desember, skatta- og skerðingarlaust, sem hefur verið kynnt sem bráðabirgðaaðgerð á meðan heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins stendur enn yfir. Að óbreyttu má ætla að fallið verði frá útborgun eingreiðslunnar á næsta ári þegar nýtt örorkulífeyriskerfi hefur tekið gildi. Heildaráhrifin verða þau að árstekjur öryrkjans sem býr einn, fékk ungur örorkumat og er óvinnufær munu lækka um u.þ.b. 20 þúsund krónur. Landssamtökin Þroskahjálp hafa lýst áhyggjum af stöðu fólks með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir, en meirihluti þess hefur engar aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er hætt við að nokkur fjöldi öryrkja verði fyrir tekjurýrnun ef fallið verður frá eingreiðslunni og ekki verða gerðar breytingar á frumvarpi ráðherra. Að þessu leyti er yfirskriftin „Öll með“ rangnefni. Það eru ekki öll með. Til að koma í veg fyrir að nokkur öryrki verði fyrir tekjurýrnun væri réttast að falla frá eða draga úr þeirri lækkun sem lögð er til á aldursviðbót og heimilisuppbót í frumvarpinu. Fleiri bera skarðan hlut frá borði Í dæminu hér að framan er horft til hóps sem er nú þegar með 75% örorkumat og áhrifa nýs kerfis á kjör hans. Sama gildir um reiknivél ráðuneytisins þar sem fólk getur borið saman hvað það fær í núverandi greiðslukerfi og hvað það myndi fá í nýju kerfi. En að hinu þarf líka að hyggja: hvernig öryrkjum framtíðar – þeim sem koma nýir inn í kerfið – mun reiða af í nýja greiðslukerfinu í samanburði við greiðslurnar sem þeir myndu fá ef kerfinu yrði ekki breytt. Af greinargerð frumvarpsins og kynningu þess er ljóst að gert er ráð fyrir að stór hluti fólk sem mun fá fyrsta mat á næstu árum verði metið með 26-50% starfsgetu og sett á hlutaörorkulífeyri, fólk sem í mörgum tilvikum hefði verið metið með 75% örorku samkvæmt núverandi kerfi. Í nýja kerfinu mun fólk á hlutaörorkulífeyri eiga rétt á tímabundnum virknistyrk meðan á atvinnuleit stendur sem nemur mismun hlutaörorkulífeyris og fulls örorkulífeyris. Í ljósi þess að virknistyrkur fellur niður við fyrstu krónu sem fólk vinnur sér inn þurfa atvinnutekjur vegna hlutastarfs að vera um eða yfir 250 þúsund krónur á mánuði svo að heildartekjur verði ekki lægri í nýja kerfinu en þær hefðu verið miðað við 75% örorkumat í núverandi kerfi. Dæmi: Ef 24 ára einstaklingur með hlutaörorkulífeyri sem býr einn og er ekki með lífeyrissjóðstekjur tekur að sér verkefni eða vinnur hlutastarf fyrir 200 þúsund krónur á mánuði, þá verða mánaðarlegar heildartekjur hans 24 þúsund krónum lægri samkvæmt nýja kerfinu heldur en ef hann gengi inn í greiðslukerfið eins og það er í dag. Loks er ljóst frumvarpið kemur illa við þann hóp sem hefur ekki áunnið sér fullan rétt til lífeyris innan almannatryggingakerfisins vegna stuttrar búsetu hér á landi. Sérstök framfærsluuppbót fellur brott án þess að fyrir liggi hvernig framfærsla fólksins verður tryggð. Þetta er fólkið sem lagði ríkið í dómi Hæstaréttar nr. 52/2021 þar sem staðfest var að stjórnvöldum er óheimilt að binda fjárhæð uppbótar á lífeyri við búsetu á Íslandi og að slíkt gengur í berhögg við markmið laga um félagslega aðstoð. Það er lítil huggun fólgin í því fyrir þennan hóp að „verið sé að skoða ýmsar leiðir“ til að koma til móts við hann eins og það er orðað í greinargerð frumvarpsins. Af þeim upplýsingum sem birtar hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda má ráða að krónu-móti-krónu skerðing verði tekin aftur upp gagnvart öryrkjum í þessari stöðu. Gallaður virknistyrkur: Ný ofurskerðing og refsivöndur Ákvæði frumvarpsins um virknistyrk eru meingölluð og geta beinlínis unnið gegn markmiðinu um aukna virkni. Í fyrsta lagi mun virknistyrkurinn falla alfarið niður um leið og fólk vinnur sér inn eina krónu í atvinnutekjur. Fjárhæð virknistyrks nemur 95 þúsund krónum á mánuði sem þýðir að ábatinn af því að vinna sér inn 100 þúsund krónur er 5 þúsund krónur fyrir skatt. Öryrkjar í atvinnuleit munu í raun sæta strangari reglum en aðrir atvinnuleitendur sem í dag njóta 86.114 kr. frítekjumarks á mánuði og hafa þannig svigrúm til að sinna tilfallandi vinnu án þess að verða fyrir skerðingu. Einstaklingur með skerta starfsgetu mun aðeins fá greiddan virknistyrk, fulla framfærslu, ef hann er reiðubúinn að taka hverju því starfi sem býðst, óháð menntun, áhugasviði og hæfileikum. Almenna reglan verður sú að ef öryrkinn hafnar starfi eða atvinnuviðtali er honum refsað með tveggja mánaða niðurfellingu virknistyrksins. Ef það gerist aftur er öryrkjanum refsað með þriggja mánaða niðurfellingu. Dæmi: 55 ára kona í sambúð hefur misst starfsgetuna og er á hlutaörorkulífeyri og virknistyrk með samtals 380 þúsund krónur á mánuði. Hún fer í atvinnuviðtal og býðst starf en líst ekki á aðstæður og hættir við. Tekjur hennar næstu tvo mánuði súnka þá niður í 285 þúsund krónur fyrir skatt. Í álitsgerð sem MAGNA-lögmenn unnu fyrir ÖBÍ er bent á að samspil þessara reglna leiðir til þess að „eigi atvinnuleitandi erfitt uppdráttar við atvinnuleit, mæti fordómum á vinnumarkaði eða bjóðist ekki starf við hans hæfi geti það leitt til skertrar framfærslu. Eru reglurnar ósveigjanlegar og illa til þess fallnar að mæta fötluðu fólki og síst til þess fallnar að stuðla að farsælli endurkomu á vinnumarkað.“ Þannig er fólk með skerta starfsgetu sett í niðurlægjandi stöðu á vinnumarkaði með refsikenndum ákvæðum sem hljóta að ýta undir streitu og vanlíðan. Það er óskiljanlegt að frumvarpið hafi verið lagt fram í þessari mynd. Öryrkjar Íslands eiga að njóta virðingar og mannlegrar reisnar og þessa refsistefnu verður að þurrka út úr frumvarpinu. Valdframsal til ráðherra og TR Ein stærsta breytingin er að tekið verður upp „samþætt sérfræðimat“ í stað læknisfræðilegs örorkumats. Framkvæmd þessa sérfræðimats verður forsendan fyrir greiðslu örorkulífeyris og sá grundvöllur sem stjórnarskrárbundinn réttur fólks til framfærsluaðstoðar verður ákvarðaður samkvæmt. Þannig hlýtur að skipta öllu máli hvað nákvæmlega felst í samþættu sérfræðimati, hverjir efnisþættir þess eru, hvaða sjónarmið og mælikvarðar munu ráða för og hvers konar aðferðafræði og sérfræðiþekkingu verður byggt á. Þessum spurningum er hins vegar ekki svarað í frumvarpinu heldur er ráðherra falið að útfæra þessi grundvallaratriði í reglugerð. Tryggingastofnun, sem mun framkvæma matið, fær nær engar leiðbeiningar um framkvæmdina í lagatexta. Þar segir einungis að stofnunin skuli „byggja á fyrirliggjandi gögnum um færni umsækjanda til atvinnuþátttöku og árangur endurhæfingar eftir því sem við á“ og að hún skuli „afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga“ og „óska eftir umsögnum sérfræðinga ef þörf er á“. Fyrir liggur að starfshópur sem mun þróa staðlað matstæki vegna samþætts sérfræðimats er rétt að hefja störf og gert hefur verið ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt án þess að fyrir liggi drög að reglugerð um helstu efnisþætti sérfræðimatsins. Með þessu yrðu meiriháttar völd framseld til ráðherra og Tryggingastofnunar um það hvernig rétturinn til framfærslu verður ákvarðaður. Þannig myndi Alþingi í raun samþykkja grundvallarbreytingu á örorkulífeyriskerfinu án þess að vita hvað felst í breytingunni. Ekki hægt að hleypa málinu óbreyttu gegnum Alþingi Í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra er gert ráð fyrir að ýmsar alvarlegar brotalamir í örorkulífeyriskerfinu verði áfram til staðar, atriði sem ætti sannarlega að breyta þegar „heildarendurskoðun“ á kerfinu fer fram. Um þetta mun ég fjalla síðar, bæði í þingsal og í annarri grein hér á Vísi.is. Frumvarpið tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2025. Í ljósi þess hve alvarlegir ágallar eru á málinu hlýtur að koma til álita að klára ákveðna grundvallarþætti þess og lögfesta nú á vorþingi, meðal annars ákvæði frumvarpsins um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, þjónustugátt, samhæfingarteymi og samstarf og samfellu milli þjónustukerfa, en gefa að öðru leyti félags- og vinnumarkaðsráðherra og ráðuneyti hans svigrúm til að vinna málið betur. Endurbætt frumvarp yrði þá lagt fram strax og þing kemur saman í haust og afgreitt á Alþingi fyrir áramót. Með þessu gæfist einnig tími til að útfæra og kynna hið samþætta sérfræðimat. Ef ekki er vilji til að skipta upp vinnunni með þessum hætti þá er það krafa okkar í Samfylkingunni að brugðist verði með afgerandi hætti við helstu ágöllum frumvarpsins og þeir lagaðir svo fólk í viðkvæmri stöðu þurfi ekki að hafa áhyggjur af áhrifum breytinganna á sitt daglega líf. Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands.
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun
Skoðun Samviskufrelsi heilbrigðisstarfsmanna ekki vandamál þegar kemur að dánaraðstoð Ingrid Kuhlman skrifar
Skoðun Jólaskreytingafyllerí: Eru takmörk fyrir því hversu langt má ganga í jólaskreytingum? Hildur Ýr Viðarsdóttir skrifar
Skoðun Er lausnin í leikskólamálum að grafa undan atvinnuþátttöku og jafnrétti? Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar
Skoðun Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar
Skoðun Skautaíþróttir í Reykjavík í dauðafæri - kýlum á stækkun Skautahallarinnar Bjarni Helgason skrifar
Kristrún, Þorgerður og Inga: Framtíð Íslands - Ykkar tími er komin! Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun
Eldra fólk þarf Jóhann Pál sem félagsmálaráðherra – nema kannski þeir auðugustu Viðar Eggertsson Skoðun