Aðalsaksóknari ICC, Karim Khan, greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að óska eftir því að handtökuskipanir yrðu gefnar út á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og varnarmálaráðherranum Yoav Gallant.
Þá hefur hann einnig óskað eftir að gefnar verði út handtökuskipanir á hendur leiðtogum Hamas; Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas á Gasa, Muhammad Deif, yfirmanni hermála, og Ismail Haniyeh, pólitískum leiðtoga Hamas sem dvelur í Katar.
Mennirnir eru allir sakaðir um stríðsglæpi og þrátt fyrir að Khan talaði ekki um þjóðarmorð í beiðnum sínum um handtöku Netanyahu og Gallant voru Bandaríkjamenn fljótir að ítreka þá afstöðu sína að Ísraelsmenn væru saklausir af slíkum ásökunum.
President Biden: "Let me be clear. We reject the ICC's application of arrest warrants against Israeli leaders. Whatever these warrants may imply, there is no equivalence between Israel and Hamas. And it’s clear Israel wants to do all it can to ensure civilian protection, but let… pic.twitter.com/r2hDgrpMnE
— Aviva Klompas (@AvivaKlompas) May 20, 2024
„Hermenn [Ísrael] vakna ekki á morgnana og fara af stað með skipanir um að myrða saklausa borgara í Gasa,“ sagði John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, í gær.
Stjórnvöld vestanhafs hafa verið nokkuð afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að Ísraelsmenn þurfi að gera meira til að standa vörð um almenna borgar á Gasa og koma þeim til aðstoðar. Biden ítrekaði hins vegar að það stríð sem nú geisaði á svæðinu væri tilkomið vegna aðgerða Hamas.
„Leyfið mér að vera alveg skýr; við höfnum umleitan ICC eftir handtökuskipunum gegn leiðtogum Ísrael,“ sagði Biden í gær. „Hvað svo sem þessar handtökuskipanir kunna að gefa til kynna þá er ekki hægt að leggja Ísrael og Hamas að jöfnu.“