„Það er bara eins og í hinum leikjunum, spenna. Það er búið að vera vel mætt á þetta og stemning. Við leggjum þetta upp eins og hina leikina, að gera allt til að sækja sigur,“ segir Sverrir um tilfinninguna á morgni leikdags.
„Aðalatriðið er að allur fókus sé á það sem við þurfum að gera til að vinna. Við hugsum bara um það sem við þurfum að gera inn á gólfi í gegnum leikinn,“ segir Sverrir jafnframt. En hvað er það þá sem liðið þarf að gera til að fagna sigri í kvöld?
„Það er heilmargt. Við þurfum að berjast meira en þær og standa saman í gegnum leikinn í því sem mun kom upp. Svo þurfum við að finna góð skot og spila með sjálfstrausti í 40 mínútur,“ segir Sverrir.
Keflavík vann fyrsta leik seríunnar 94-91 á sínum heimavelli og fylgdi því eftir með tíu stiga sigri í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kjölfarið. Vel hefur verið mætt á þennan grannaslag í úrslitunum og Sverrir gerir ráð fyrir engu minni stemningu í kvöld.
„Ég held það verði stútfullt í kvöld af Keflvíkingum og Njarðvíkingum og vonandi bara mikið fjör,“ segir Sverrir.
Leikur Keflavíkur og Njarðvíkur er klukkan 19:15 í kvöld. Bein útsending hefst klukkan 18:30 á Stöð 2 Sport.