Lögregla hefur varist frétta af atburðunum í Bolungarvík en hún rannsakar mannslát í heimahúsi við Hlíðarveg. Hjón á sjötugsaldri eru búsett í húsinu samkvæmt heimildum fréttastofu.
Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, sagði Vísi í morgun að enginn hefði verið handtekinn. Hann vildi ekki tjá sig að öðru leyti en boðaði yfirlýsingu síðar.
Staðarmiðilinn Bæjarins bestu hefur eftir heimildum sínum að „alvarlegir atburðir sem varða tvo einstaklinga“ hafi átt sér stað í húsinu.
Tæknideildinni var flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur í gær. Samkvæmt heimildum Vísis sáust lögreglumenn fara inn í húsið með því að fjarlægja spónaplötu yfir glugga.