Forsetakosningarnar á morgun verða mögulega þær mest spennandi í lýðveldissögunni, að mati Eiríks Bergmann prófessors í stjórnmálafræði - sem bendir jafnframt á að kannanir hafi verið mjög misvísandi. Hann fylgdist með kappræðum frambjóðenda á Stöð 2 í gærkvöldi og þótti þeir standa sig vel.
„Það eru svona smá átakapunktar milli Baldurs Þórhallssonar og Jóns Gnarr sem eru athyglisverðir. Það var auðvitað ljóst að Halla Tómasdóttir mætti þarna af miklu sjálfstrausti með meðbyr með könnunum. Halla Hrund mætti þeirri gagnrýni um að málflutningur hennar hafi verið heldur óljós lengi vel, þannig að hún talaði með skýrari hætti heldur en áður. Og Katrín Jakobsdóttir er auðvitað mjög sjóuð í svona þáttum og hélt sinni stöðu mjög vel, sýndist mér,“ segir Eiríkur.
Síðustu dagarnir skipti gríðarmiklu máli
Síðasta fylgiskönnun fyrir kosningar er væntanleg frá Gallup í dag og í kvöld koma frambjóðendur saman í lokakappræðum á RÚV. Eiríkur bendir á að þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti í fyrsta sinn hafi kannanir sýnt að stór hluti kjósenda gerði upp hug sinn á lokametrunum, jafnvel ekki fyrr en í kjörklefann var komið.
„Þessir dagar skipta bara gríðarlega miklu máli. Það getur skipt máli hvernig fólk stendur sig í kvöld, það er bæði hægt að glopra sigrinum úr höndunum en það er líka hægt að vinna á. Það kannski þarf ekki svo mikla hreyfingu til að breyta niðurstöðunni. En aftur eru kannanir svo misvísandi að ég held að málið sé ekki það að fylgið sé á svona mikilli hreyfingu heldur eru kannanafyrirtækin að mæla þetta með misjöfnum hætti og við erum augljóslega að sjá einhverja kannanaskekkju, myndi ég halda,“ segir Eiríkur.
Hvernig heldurðu að þetta fari?
„Það er ómögulegt að segja. Ég held að Katrín sé í vænlegastri stöðu en ég tel Höllu Tómasdóttur vera orðna alvöru keppinaut við hana og hún gæti allt eins unnið. Svo held ég að maður ætti ekki að afskrifa Höllu Hrund alveg strax heldur.“
Utankjörfundaratkvæðagreiðslu lýkur klukkan tíu í kvöld og kjörstaðir opna víðast hvar klukkan níu í fyrramálið. Þeir sem eru ekki vissir um hvar þeir eigi að kjósa geta fengið upplýsingar um sinn kjörstað á vef Þjóðskrár, skra.is.